Már Wolfgang Mixa
Már Wolfgang Mixa
Fólk er að vissu leyti verðlaunað fyrir mikla skuldasöfnun, segir Már Wolfgang Mixa, en refsað fyrir það að fara sér hægt og kaupa minni eignir.
UNDANFARIÐ hefur mikið verið rætt um sparnað þjóðarinnar, eða öllu heldur, hversu lítill sparnaður landsmanna er. Í nýlegu fréttabréfi Samtaka atvinnulífsins kemur fram að hreinn sparnaður hefur minnkað mikið undanfarin tvö ár og á síðasta ári aðeins verið tæpt hálft prósent af landsframleiðslu, en til hliðsjónar má nefna að fyrstu níu ár síðasta áratugar var sparnaður oftast á bilinu 3-5%.

Þetta er afar athyglisvert, sérstaklega í ljósi þess að í dag eru auknir möguleikar hvað varðar sparnað. Ég er hér aðallega að vísa í viðbótarsparnað sem getur numið allt að 4% af tekjum fólks, en hann getur veitt skattalegt hagræði auk þess að ríki og atvinnurekandi leggja framlag til móts við þann sparnað. Fleiri sparnaðarform hafa komið fram síðustu misseri sem vert væri að gefa gaum að.

Það vekur eftirtekt hversu lítill fjöldi landsmanna nýtir sér þessi sparnaðarform og fram hefur komið sú hugmynd að meiri kraft þurfi að leggja í kynningu á slíkum sparnaðarhugmyndum. Að mínu mati þarf ríkisstjórnin hins vegar fyrst og fremst að veita landsmönnum skýr skilaboð um hugarfarsbreytingu varðandi sparnað til að slík kynning skili viðunandi árangri. Í þessu sambandi lít ég aðallega til núverandi laga um vaxtabætur vegna lána til húsnæðiskaupa og eignaskatt.

Óeðlileg vaxtabótastefna

Eins og staðan er í dag fást vaxtabætur aðeins ef skuldir fólks eru nægjanlegar til þess að tekjur þeirra skerði þær ekki. Vaxtabætur geta minnkað með tvennum hætti, ef tekjur manna hækka frá ári til árs eða skuldir eru borgaðar niður. Þetta kerfi er því letjandi til að afla meiri tekna og hvetur til skuldasöfnunar. Umfram allt, stuðlar þetta kerfi ásamt núverandi eignaskatti, að því að þeir einstaklingar sem sýna skynsemi í því að lágmarka skuldir sínar lenda í þeirri stöðu að fjármagna að hluta til skuldasöfnun hinna.

Einfalt dæmi um slíkt væri um tvo einstaklinga, á sömu launum, sem hvor um sig taka lán sem veitir vaxtabætur til húsnæðiskaupa. Annar greiðir upp lánið á fimm árum en hinn gefur sér 40 ár til þess. Fimm árum síðar á fyrri einstaklingurinn orðið húsnæði sitt skuldlaust vegna aðhaldssemi sinnar. Honum er hins vegar refsað með tvennum hætti. Vaxtabætur hafa fallið niður, vegna þess að skuldir hafa lækkað "of mikið", auk þess sem honum er gert að greiða eignaskatt. Ríkið tekur við þeim eignaskatti og greiðir hinum einstaklingnum vaxtabætur, m.ö.o. verðlaunar hann fyrir að draga það á langinn að greiða niður skuldir sínar. Í raun er fyrri einstaklingurinn því farinn að greiða niður skuldir síðari einstaklingsins, ríkið er aðeins milliliður. Er eðlilegt að hinir aðhaldssömu verðlauni skuldasafnara?

Stuðlað að frekari skuldasöfnun

Sú umræða sem hefur átt sér stað í fjölmiðlum um sparnað og aðhald ætti að hafa vakið fólk til umhugsunar um mikilvægi sparnaðar og því gefið tilefni til hvetjandi ráðstafana í þá áttina. Það skýtur því nokkuð skökku við í þessari umræðu að nýlega er búið að setja ný lög um lán frá Íbúðalánasjóði og brunabótamat, sem veita slíkum málstað þveröfug skilaboð, þ.e. að verið er að stuðla enn frekar að skuldasöfnun vegna íbúðarkaupa.

Með nýju lögunum er hámarksupphæð veitt til húsbréfalána hækkuð í 9 milljón króna. Á sama tíma eru forsendum vegna mats á brunabótamati breytt sem leiðir, samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins, til þess að brunabótamat lækki að meðaltali um 11%. Auk þess snarhækkar fasteignamat í mörgum tilvikum sem leiðir til hærri eignaskatts.

Áhrifin af þessum breytingum verða að hærri lán eru veitt til dýrara húsnæðis en áður, samanborið við ódýrari húsnæði. Það er m.ö.o. verið að gera það hagstæðara fyrir einstaklinga að fjárfesta í dýrara húsnæði en áður á sama tíma og verið er með breytingum á brunabótamati að skerða lán til kaupa á ódýrari húsnæði. Ekki er hægt annað en skilja þetta sem svo að verið sé að hvetja enn frekar til skuldasöfnunar. Auk þess refsar hærri eignaskattur enn frekar þeim sem bera minni skuldir.

Afnema skal vaxtabótakerfið

Forsætisráðherra hefur nú þegar gefið í skyn að eignaskattur verði afnuminn í áföngum á næstu árum. Það ætti að veita þeim sem sýna aðhaldssemi varðandi skuldasöfnun hvatningu til að halda áfram á þeirri braut og er það óskandi að þeim áformum verði senn lokið. Að mínu mati ætti hins vegar einnig að endurskoða núverandi vaxtabótakerfi hið fyrsta frá grunni, enda mismunar það þeim sem stunda skuldasöfnun á kostnað þeirra sem sýna aðhald, með ríkið sem millilið. Þannig verða skilaboðin ótvíræð, sparnaður borgar sig.

Ég vil þó árétta að með þessu er ég ekki að draga úr mikilvægi þess að til sé kerfi sem aðstoði þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Húsbréfa- og félagslega kerfið eiga einmitt að stuðla að slíku. Gagnrýni mín snýr fyrst og fremst að því að eins og kerfið er sett upp í dag þá er fólk að vissu leyti verðlaunað fyrir mikla skuldasöfnun og hvatt til þess að kaupa stórar eignir, en refsað fyrir það að fara sér hægt og kaupa minni eignir sem fela í sér minni skuldabyrði. Frelsi í verki á ekki að takmarkast við skuldasöfnun, það verður einnig að veita frelsi til sparnaðar, án refsingar.

Höfundur er fjármálafræðingur.