29. nóvember 2001 | Viðskiptablað | 569 orð

Viðskipti á réttum tíma

"Hann [spákaupmaðurinn] verður ekki aðeins að fylgjast vel með heldur einnig að muna á öllum stundum hverju hann hefur komi

Tímaskipting skiptir máli í öllum viðskiptum, sérstaklega þegar um hlutabréf er um að ræða, þó svo að fjárfestingarstefna vegi mest þegar til lengri tíma er litið.
Tímaskipting skiptir máli í öllum viðskiptum, sérstaklega þegar um hlutabréf er um að ræða, þó svo að fjárfestingarstefna vegi mest þegar til lengri tíma er litið. Til að nálgast visku varðandi kaup á verðbréfum er hægt að benda á bókina Reminiscences of a Stock Operator. Bókin er full af speki varðandi tímasetningu fjárfestinga og sálfræðiþáttinn sem óhjákvæmilega fylgir slíku. Lestur hennar getur verið ígildi nokkurra ára reynslu á verðbréfamörkuðum fyrir þá sem þar starfa. Reminiscence of a Stock Operator er frásögn um skáldsagnapersónuna Larry Livingstone, en byggist í raun á sögu þekkts fjárfestis, Jesse Livermore, sem var þekktur spákaupmaður. Höfundur bókarinnar, Edwin Lefévre, tók fjölmörg viðtöl við Livermore og tókst svo vel upp við að lýsa reynslu hans að margir töldu að nafnið Larry Livingstone væri í raun dulnefni á Livermore sem Lefévre hefði nýtt sér. Frásögn bókarinnar snýr að lýsingu Larry Livingston á lífshlaupi sínu, sem snerist nánast eingöngu í kringum viðskipti. Hann varð ríkur á því að átta sig á verðsveiflum hlutabréfa sem táningur með því að reikna út líkur á sveiflum þeirra ef þau næðu ákveðnu gengi. Í framhaldinu hóf hann störf á Wall Street þar sem hann varð ríkur og fátækur á víxl, en þessi viðburðaríka ævi hans gerðu hann að goðsögn meðal hlutabréfafjárfesta á sinni tíð.

Hugleiðingar um markaði og sveiflur á þeim eru tíðar í bókinni, enda fáir menn sem hafa öðlast jafnvíðtæka reynslu og Livingstone. Það sem skipti söguhetjuna mestu máli var einfaldlega að hafa rétt fyrir sér varðandi markaði til skemmri tíma, ekki hvort hlutabréf væru t.d. góð eða slæm langtímafjárfesting. Livingstone var stöðugt að uppgötva lögmál varðandi markaði sem hann nýtti sér við að spá um hvort þeir væru í þann mund að fara upp eða niður. Auk þess koma frasar sem margir þekkja í dag upphaflega úr texta bókarinnar. Dæmi eru: "Alltaf skal selja það sem sýnir þér tap og halda því sem sýnir þér hagnað" og að "verð er aldrei of hátt til að byrja að kaupa og aldrei of lágt til hefja sölu". Þetta er viska sem erfitt er fyrir margan að kyngja, enda neyðir hún fólk til að játa fyrri fjárfestingarmistök. Atriði sem Lefévre telur upp, athugun, reynsla, minni og útreikningar, eru öll mikilvæg fyrir þá sem stunda verðbréfaviðskipti en framlag frásagnar hans snýr einmitt mjög skemmtilega að minninu. Bókin hjálpar til við að muna og því læra af reynslu annarra kynslóða, sem að mörgu leyti er furðanlega lík því sem er að gerast í dag. Þó svo að bókin hafi verið upphaflega gefin út árið 1923 og sagan átt sér stað síðustu ár nítjándu aldar og fyrstu ár þeirrar tuttugustu eru sannleikskornin varðandi verðbréfaviðskipti í bókinni jafnmikilvæg í dag og þau voru þá. Umgjörð viðskipta hefur að sjálfsögðu breyst mikið en fólkið sem tekur þátt í þeim er með sömu tilfinningar og það hefur verið með frá því að viðskipti á skipulögðum verðbréfamörkuðum hófust. Sömu lögmálin eru ávallt í gangi og þeim fylgir alltaf óvissa, sem stundum er ómögulegt að sjá fyrir.

Þessi bók er í senn fræðandi og afar skemmtileg. Hún dregur lesandann inn í heim spákaupmannsins og stöðuga leit hans að lögmálum markaða. Hún ætti að höfða til flestra sem starfa með einum eða öðrum hætti á verðbréfamörkuðum, enda geta flestir slíkir einstaklingar sett sig í spor Livingstone á mörgum síðum bókarinnar. Fyrir aðra sem starfa ekki á mörkuðum en hafa áhuga á þeim ætti þessi bók að vera lifandi lesning.

mixa@sph.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.