Svanfríður Larsen
Svanfríður Larsen
Tímabært er að setja lög á Íslandi, segir Svanfríður Larsen, sem banna umskurð og kveða á um refsingu við slíku athæfi.

ÍSLENDINGAR tóku vel á móti sómölsku fyrirsætunni Waris Dirie sem einnig gegnir hlutverki sendifulltrúa Sameinuðu þjóðanna í baráttunni gegn umskurði. Daginn sem Waris áritaði bók sína Eyðimerkurblómið í Eymundsson var röðin lengri en áður hafði þekkst, hún troðfyllti hátíðasal Háskóla Íslands og fjölmiðlar kepptust við að fjalla um líf hennar. Hvort það var fyrirsætan eða sendifulltrúinn sem athygli vakti má einu gilda, með návist sinni og skrifum fræddi hún Íslendinga um hættulega hefð í heimalandi sínu, um örlög sín og 130 milljóna kvenna um allan heim sem einsog Waris orðar það "hafa verið rændar kveneðli sínu".

Umræðan um umskurð er hins vegar ekki ný á Íslandi. Fyrir tveimur árum vakti Lilja Hjartardóttir, stjórnmálafræðingur, athygli á málefninu með eftirminnilegum fyrirlestri í Reykjavík og síðar á Akureyri. Enn fyrr hafði farið fram fræðsla og umræða um umskurð hjá Zontaklúbbunum á Íslandi, en þeir hafa um þriggja ára skeið tekið þátt í alþjóðlegu verkefni Zontahreyfingarinnar (Zonta International) í Burkina Faso í Afríku þar sem umskurður er ríkjandi hefð. Ásamt Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) vinnur hreyfingin markvisst að því að fækka slíkum aðgerðum á stúlkubörnum, í samvinnu við stjórnvöld í landinu, en umskurður er þar bannaður með lögum. Þar hefur farið fram víðtæk fræðsla um þjáningarfullar og hættulegar afleiðingar umskurðar, bæði meðal almennings og í skólum, og höfðingjar og heilbrigðisstéttir hafa fengið sérstaka þjálfun. Neyðarlínu hefur verið komið á fót og því hefur verið hægt að fangelsa hluta þeirra einstaklinga sem stunda þessa iðju, ásamt vitorðsmönnum, auk þess sem unnt hefur verið að veita markvissari aðstoð. Það er erfitt og seinlegt að breyta rótgrónum hefðum en verkefnið í Burkina Faso fer vel af stað og gæti orðið fyrirmynd að ámóta verkefnum í fleiri ríkjum.

Vorið 2000 stóðu Zontaklúbbarnir 6 á Íslandi fyrir fjáröflun meðal almennings. Hafir þú, lesandi góður, keypt gjafakort með gulum rósum (tákni Zonta) hefur þú lagt nokkuð af mörkum í baráttunni gegn umskurði. Í þeirri fjáröflun kom hins vegar einnig í ljós að mörgum þótti verkefnið fjarlægt og okkur Íslendingum lítt viðkomandi. Vonandi hefur ,,eyðimerkurblóminu" tekist að breyta þeim viðhorfum og sannfæra menn um að svo víðtæk mannréttindabrot koma öllum við. Auk þess kunna böndin fljótlega að berast að okkur, því nú þegar búa hér á landi einstaklingar sem aldir eru upp í þessari hefð. Því er tímabært að setja lög á Íslandi sem banna umskurð og kveða á um refsingu við slíku athæfi.

Zontaklúbbarnir á Íslandi þakka fyrir veittan stuðning og vona að þeir geti áfram reitt sig á aðstoð almennings. Einungis með víðtæku átaki um allan heim kann draumur Warisar Dirie að rætast, en hún segir þetta um umskurð kvenna í bókarlok: Bæn mín er heit og sterk. Hún er sú að engin kona þurfi framar að ganga í gegnum slíkar kvalir. Að slíkt muni heyra fortíðinni til.

Höfundur er svæðisstjóri Zonta á Íslandi.