Jón Sigurðsson
Jón Sigurðsson
Veiðar með línu og handfærum, segir Jón Sigurðsson, fela í sér sjálfvirka fiskvernd.
SÍÐAST þegar ég skrifaði hér í Mbl. um fiskveiðistjórn treysti ég mér ekki lengur að gera það í fullri alvöru, heldur lýsti þeirri undraveröld, sem stríðsmönnum sérhagsmunanna í þessum efnum hefur tekist að halda umræðunni í. Þar er staðreyndunum snúið á haus og raunheimurinn skiptir engu máli.

Öll meðferð málsins fær að gerast í Undralandi, þar sem engin rök eiga við. Árangurinn er verulega góður, þótt hann sé neikvæður og hagræðingin er því meiri sem menn safna meiri skuldum. Hér ætla ég hins vegar að reyna enn einu sinni að tala um þessi efni í alvöru, enda eru tilefnin ærin.

Eftir fund smábátasjómanna á Austurlandi nýverið var nokkur fréttaflutningur í útvarpi, sem gaf til kynna vansælu smábátasjómanna þar eystra með þróun stöðu þeirra undanfarið. Aðalhlutverk í þeim fréttum lék þó Halldór Ásgrímsson, sem sagði, að reynt yrði að koma til móts við sjónarmið smábátasjómanna. Hann klykkti út með yfirlýsingu, sem er yfirskrift þessarar greinar: "Það sem einum er veitt er frá öðrum tekið." Þetta er að mati ráðherrans ramminn utan um mögulegar lausnir.

Að mínu mati er forsenda þessarar yfirlýsingar röng. Væri niðurstaða Hafró um stærðir fiskstofna nákvæmnisvísindi, væri þorskstofninn, ýsustofninn, skarkolastofninn o.s.frv. hver um sig einn og ekki margir landshlutabundnir stofnar, ef það skipti engu máli fyrir fiskvernd og afkomu fiskstofna, hvort veitt er með togveiðarfærum eða á línu eða handfæri, væri þetta allt saman svo, þá væri kannski vit í því, sem ráðherrann sagði.

Að því er varðar þorskinn er fræðilega sannað, að stofnarnir eru margir og ónákvæmnin í mati á heildarstærð þeirra eykst að sama skapi. Úr því að þorskstofnarnir eru margir er fráleitt að taka ákvarðanir eins og stofninn sé einn. Þorskurinn, sem heimamönnum gefst færi á í Húnaflóa, í Eyjafirði eða austur á Bakkafirði, er allt annar þorskur en sá, sem menn eru að veiða hér við suðvesturströndina eða á djúpslóðum. Að úthluta ákveðnu magni í fiskverndarskyni sem einum og sama þorskinum er augljóst rugl. Það stenst ekki almenn skynsemisrök.

Fyrir liggur, að niðurstaða Hafró um stærð "þorskstofnsins" er á mannamáli sú, að 800 þús. tonna veiðistofn er í rauninni á bilinu 570-1.050 þús. tonn, en þó væru um 5% líkindi til, að hann gæti verið annaðhvort stærri eða minni. Þetta er nú nákvæmnin í þessum fræðum og síðustu árin hefur reynt á hana út fyrir ystu mörk.

Á þessum trausta grunni var ákveðið hversu mikið skyldi veiða eftir svolitlar leikfimiæfingar sjávarútvegsráðherrans. Og menn gæti þess, að mest er vitað um þorskinn. Hafró veit ennþá minna um allar hinar botnfisktegundirnar, sem hafa verið njörvaðar niður með kvótanum. Á þessum vanburða grunni virðist yfirlýsing Halldórs Ásgrímssonar vera byggð um að það, sem einum sé veitt, sé frá öðrum tekið.

Grunnurinn undir þessu öllu eru vinnubrögð Hafró. Fréttir hafa verið sagðar af tímabærri viðleitni stofnunarinnar til fundarhalda víðs vegar um land. Þar töldu sérfræðingar stofnunarinnar togararallið afargóða leið til að meta stærð fiskstofna. Þetta rall á sér stað með þeim hætti, að tekin eru nær 600 hol á sömu stöðum ár hvert og alltaf með sömu veiðarfærum til að tryggja samanburð milli ára. Reyndur togaraskipstjóri hefur sagt mér, að sama slóðin geti gefið allt frá engum afla upp í rífandi fiskirí eftir því á hvaða tíma dags er togað eða eftir því hvernig stendur á sjávarföllum á veiðislóðinni. Ralltogarar Hafró taka sín tog, þegar þeir eru komnir á svæðið, án tillits til nokkurs annars en þess að ljúka verkinu sem fyrst. Þetta er nú nákvæmnin í því verki. Þar á ofan er nánast ekkert af ralltogunum á grunnslóð, þar sem allt hefur fyllst af fiski undanfarin ár. Þar hlýtur að skorta mikið á matsgildi rallsins. Útreiðin, sem mat Hafró á þorskinum síðustu þrjú ár hefur fengið þar innanhúss, vekur heldur ekki traust.

Þetta er nú hinn vísindalegi grunnur undir því, að eitthvert ár skuli veiða 203 þús. tonn af þorski. Þar skorti svo sem ekki á nákvæmnina!

Það getur verið, að svona ónákvæmnisaðferðir dugi til þess að ákveða hversu mikið á að leyfa togveiðiflotanum að afla ár hvert. Þær mega hins vegar ekki ráða heildarafla. Honum á strandveiðiflotinn að ráða með sína línu og handfæri. Þar ræðst aflinn af fiskgengd, en ekki því hvað Hafró hefur mælt og reiknað, rétt eða vitlaust. Aflinn ræðst af því hversu mikið er af fiski og ekki síður því hvort hann er í æti eða ekki - hvort hann er að vaxa eða ekki. Veiðar með línu og handfærum fela í sér sjálfvirka fiskvernd. Þær friða fisk í góðum vexti. Þær geta aldrei ofboðið fiskstofnum. Löngu fyrr er hætt að borga sig að sækja fiskinn. Og sem fyrr sagði verndar fiskur í góðu æti og þar með góðum vexti sig sjálfur. Togveiðar geta frekar haldið áfram án tillits til alls, þar til síðasti fiskurinn er fundinn og veiddur. Þess vegna geta magntakmarkanir með kvóta átt við gagnvart togveiðum. Þær eiga hins vegar ekki við gagnvart línu- og handfæraveiðum. Til þess er þekkingin á stærð fiskstofna of ónákvæm. Fiskgengdin á að fá að ráða því, hversu mikið strandveiðiflotinn getur veitt, enda yrðu þá aflabrögðin í réttu hlutfalli við það hversu rétt eða rangt Hafró hefur haft fyrir sér í mati á stærð fiskstofna. Að njörva allan strandveiðiflotann með kvótasetningu eins og nú hefur verið gert stenst engin rök miðað við ónákvæmnina í mati á stofnstærðum.

Þess vegna er yfirlýsing Halldórs Ásgrímssonar alger rökleysa. Þar á miklu frekar að ríkja hið gamla orðtæki, að enginn veiði annars manns fisk. Fiskveiðistjórnarkerfi, sem innleiðir svo góðar, gamlar hefðir, sýnist vera víðs fjarri núverandi stjórnvöldum, enda hugsa þau í þeirra Undralandi ekki um rök, heldur eingöngu um sérhagsmuni stórútgerðanna.

Ekki sakar heldur, að aðferðin, sem hér er lögð til, mundi útrýma brottkasti á gjörvöllum strandveiðiflotanum.

Höfundur er fyrrverandi framkvæmdastjóri.