[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Slökun, geisladiskur Guðjóns Bergmanns og Einars Ágústs Víðissonar. Tónlistin er eftir Einar Ágúst, en Guðjón leiðbeinir um slökun. Um hljóðfæraleik sáu þeir Einar Ágúst, Kristján Grétarsson og Ingólfur Guðni Árnason, sem einnig sá um upptökur og hljóðblöndun. Útgefandi eru Fljúgandi diskar/Edda miðlun og útgáfa.
Í HINU streitukeyrða nútímasamfélagi hefur hagur ýmissa snjallra kaupsýslumanna vænkast og margur heldur eflaust að hér sé átt við stétt verðbréfasala. Það er þó ekki tilfellið, enda munu margir þeirra vera fórnarlömb streitunnar. Hér er átt við þá fjölmörgu aðila sem hafa lifibrauð af því að selja hinar ýmsu andlegu lausnir gegn grasserandi streitunni.

Ein tegund hinna andlegu pakkalausna er hugleiðslutónlistin svokallaða, sem Friðrik Karlsson hefur verið hvað ötulastur Íslendinga við að framleiða og -reiða. Sífellt fleiri eru að hasla sér völl í hugleiðslupoppi og hér verður fjallað um geisladisk þeirra Guðjóns Bergmanns og Einars Ágústar, sem miður frumlega er nefndur Slökun.

Slökun hefur aðeins eina tónsmíð að geyma. Smíðin kallast "Englar" og hljómar í litlar 65 mínútur, með nokkrum hléum þó. Framan af er "Englum" fyrst og fremst ætlað að hljóma undir afslappaðri rödd Guðjóns, sem leiðir slökun afar fagmannlega á diskinum. Síðustu 30 mínúturnar eru hins vegar einvörðungu verk Einars, án nokkurrar andlegrar leiðsagnar. Það má vera að ósanngjarnt sé metið, en tónlistarlega séð þá ber tónsmíð Einars engan veginn slíka lengd. Gott og vel, tökum fyrstu 35 mínúturnar út, þar sem tónlistinni var ætlað bakgrunnshlutverk. Allt í lagi. Hálftími eftir.

Þetta er langur hálftími. Tónsmíðin er í E-dúr og eina hugvitssamlega framvindan í laginu er þegar smíðin færist í e-moll, annað veifið. Annars samanstendur verkið af ofnotuðum klisjum, jafnt í útsetningu sem laglínustúfum. "Englar" er reyndar allt í lagi til að byrja með, eins og svo margt í þessu lífi. Smekklegur kassagítar leiðir útsetninguna framan af, en smám saman taka gervilegir hljóðgervlar yfir, eins og svo títt er í hugleiðslupoppinu. Þeir hrærast svo saman í einn allsherjargraut, sem frá byrjun virðist ofsoðinn. Grunnurinn að laginu er kannski ekki svo afleit hugmynd sem blábyrjun á lagi eða litlu tónverki; en, hjálpi mér! - af hverju í allar þessar mínútur?

Ég veit ekki. Kannski finnst fólki ágætt að slaka á við þessa hljóðhermasúpu. Sjálfur slaka ég betur á við Liszt, Bach eða aðra snillinga rólegheitatónsmíða. Sem betur fer eru líka til íslenskir gæðadiskar sem hentugir eru við slökun og hugleiðslu. Nægir þar að nefna Jarðhörpusálma Lárusar Sigurðssonar, sem út komu fyrr á þessu ári. Þar er tónlistin einvörðungu handleikin á órafmögnuð hljóðfæri, en slíkt er einkennilega sjaldgæft hjá hugleiðslupoppurum.

Á Slökun er efalaust um margt gott, andlegt fóður. Hér er hins vegar einungis tekin beinhörð, tónlistarleg afstaða til verksins sem fær einfaldlega falleinkunn.

Orri Harðarson