EKKI þarf að útskýra fyrir þér í löngu máli það skammarlega ástand sem ríkir víða í málefnum fólks með fötlun og aðstandenda þeirra hér á landi. Á biðlistum eftir þjónustu eru hundruð manna og hafa verið um margra ára bil.
EKKI þarf að útskýra fyrir þér í löngu máli það skammarlega ástand sem ríkir víða í málefnum fólks með fötlun og aðstandenda þeirra hér á landi. Á biðlistum eftir þjónustu eru hundruð manna og hafa verið um margra ára bil. Um er að ræða þjónustu vegna búsetu, skammtímavistunar, dagþjónustu og þjónustu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins svo eitthvað sé nefnt.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa undanfarin ár beitt sér fyrir því að stjórnvöld færu að lögum og sæju til þess að umræddir biðlistar heyrðu sögunni til. Þrýstingur okkar hefur leitt til þess að stjórnvöld hafa viðurkennt vandann og gert áætlanir til að leysa hann. Hins vegar hefur ekki verið staðið við þær áætlanir. Þvert á móti eru biðlistar að lengjast og nýir að verða til. Það er ljóst að fara verður nýjar leiðir í baráttunni.

Það er mikilvægt að við sem leiðum þá baráttu séum í sem bestu sambandi við þá sem á biðlistunum eru.

Við fengum því þá hugmynd að biðja svæðisskrifstofur málefna fatlaðra og sveitarfélög þau, sem hafa tekið við þjónustu við fatlaða, um aðstoð við að ná sambandi við þig og aðra þá sem eru í sömu sporum. Aðferðin var í okkar huga einföld. Við myndum skrifa bréf þar sem þið væruð hvött til að hafa samband við skrifstofu okkar svo við gætum haft samráð um framhaldið. Síðan var ætlunin að setja bréfin í frímerkt umslag. Þar sem nöfn ykkar eru á skrá á þessum stöðum litum við svo á að lítið mál væri að prenta út límmiða með nafni og heimilisfangi og skella bréfinu í póstkassa. Til að gæta alls trúnaðar við ykkur kæmu límmiðar þessir aldrei fyrir okkar sjónir og ykkur væri svo í sjálfsvald sett hvort þið svöruðuð eða ekki.

Þetta hefur nú vafist eitthvað fyrir sumum svæðisskrifstofum. Félagsmálaráðuneytinu var sent bréf okkar til umsagnar. Þar er þetta mál í athugun og við vitum ekki nú einum og hálfum mánuði síðar hvort eða hvenær endanlegt svar kemur. En okkur liggur á.

Þá er ég loks kominn að efni þessa bréfs.

Hafið endilega samband við okkur á skrifstofu Landssamtakanna Þroskahjálpar, Suðurlandsbraut 22, í síma 588 9390, með tölvupósti afgreidsla@throskahjalp.is, skrifið sendibréf með gamla laginu eða einfaldlega lítið inn. Berum saman bækur okkar og ráðum ráðum okkar!

HALLDÓR GUNNARSSON,

formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar.

Frá Halldóri Gunnarssyni: