VON er á úrskurði EFTA-dómstólsins á næstu vikum í máli sem Hörður Einarsson hrl. höfðaði gegn íslenska ríkinu, en hann telur að virðisaukaskattur sem lagður er á erlendar bækur stangist á við EES-reglur. Málflutningi í málinu er lokið.
VON er á úrskurði EFTA-dómstólsins á næstu vikum í máli sem Hörður Einarsson hrl. höfðaði gegn íslenska ríkinu, en hann telur að virðisaukaskattur sem lagður er á erlendar bækur stangist á við EES-reglur. Málflutningi í málinu er lokið. Bæði Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og framkvæmdanefnd Evrópusambandsins hafa skilað inn greinargerðum til dómstólsins þar sem tekið er undir sjónarmið Harðar.

Samkvæmt lögum er innheimtur 24,5% virðisaukaskattur af bókum á erlendum tungum en bækur á íslensku bera aðeins 14% virðisaukaskatt. Hörður taldi að þessi mismunun væri í ósamræmi við skattaákvæði EES-samningsins sem bannar að mismuna vörum eftir uppruna. Sjónarmiðum hans var hins vegar hafnað af embætti tollstjóra og í ríkistollanefnd.

Hörður stefndi íslenska ríkinu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem hann taldi að brotinn hefði verið á sér réttur. Samkomulag varð um að héraðsdómur leitaði eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins eins og heimilt er að gera þegar um er að ræða álitamál sem varðar túlkun á EES-samningnum. Spurningin sem héraðsdómur lagði fyrir EFTA-dómstólinn er hvort svona mismunun í skattlagningu væri brot á EES-samningnum. Jafnframt var spurt hvaða lög ættu að gilda ef dómstóllinn kæmist að þeirri niðurstöðu að virðisaukaskattslögin væru andstæð EES-samningnum, en þar með eru lögin í andstöðu við EES-lögin sem Alþingi hefur samþykkt. Þá er í reynd komin upp sú staða að tvenn lög stangast á og þá vaknar sú spurning hvor lögin eru æðri.

Eftirlitsstofnun EFTA sendi inn greinargerð um málið þar sem tekið er undir sjónarmið Harðar og það sama er gert í greinargerð sem framkvæmdanefnd Evrópusambandsins sendi dómstólnum um málið. Eftirlitsstofnun EFTA telur að þar sem virðisaukaskattslögin og EES-lögin stangist á beri að fara eftir EES-lögunum. Í því sambandi er vísað til bókunar 35 við EES-samninginn.

Íslensk stjórnvöld hafa hafnað því að um mismunun sé að ræða í þessu máli. Þau hafa m.a. bent á að talsvert af íslenskum bókum sé prentað erlendis. Íslensk stjórnvöld hafa ennfremur bent á réttlætisrök í málinu þar sem reglan miði að því að vernda íslenska tungu. Þessu hefur Eftirlitsstofnun EFTA hafnað og bent á að það ættu engar réttlætingarreglur við í þessu máli. Ríki geti verið með mismunandi skattþrep á vörum svo framarlega að það leiði ekki til þess að þeirra eigin framleiðsluvörur séu ekki markvisst minna skattlagðar heldur en innfluttar vörur. Ef Ísland vilji hafa bækur í lægra skattþrepi ætti sú regla að gilda um allar bækur jafnt innlendar sem innfluttar.