TILRAUN Bandaríkjahers með eldflaug yfir Kyrrahafi í fyrrinótt gekk samkvæmt áætlun, að því er bandaríska varnarmálaráðuneytið greindi frá. Gerviflugskeyti var skotið á loft frá Vandenberg-herstöðinni í Kaliforníu kl. 02:59 að íslenskum tíma í fyrrinótt.
TILRAUN Bandaríkjahers með eldflaug yfir Kyrrahafi í fyrrinótt gekk samkvæmt áætlun, að því er bandaríska varnarmálaráðuneytið greindi frá. Gerviflugskeyti var skotið á loft frá Vandenberg-herstöðinni í Kaliforníu kl. 02:59 að íslenskum tíma í fyrrinótt. Varnareldflaug var skotið frá Kwajalein-rifinu í Suður-Kyrrahafi 22 mínútum síðar og hæfði hún flugskeytið í 232 km hæð kl. 03:30. Var þetta fimmta tilraun Bandaríkjahers með varnareldflaugar og sú þriðja sem heppnast hefur. Í ljósi góðs árangurs er talið að hún varði veginn fyrir frekari tilraunir með þróun eldflaugavarnakerfis. Kostnaður við hverja tilraun er um 100 milljónir dollara, eða um 10 milljarðar króna.

Mannskæðar erjur í Ghana

AÐ minnsta kosti 50 manns hafa látist og 150 slasast í ættbálkaerjum í Bawku-héraði í norðausturhluta Afríkuríkisins Ghana á síðustu dögum. Embættismenn telja þó að tala látinna geti verið enn hærri.

Átökin standa milli ættbálkanna Kusasi og Mamprusi og áttu upptök sín á sunnudag. Meðlimir Kusasi-ættbálksins kveiktu þá í söluturni í eigu Mamprusi-manns og svöruðu félagar hans með því að leggja eld að kofa Kusasi-fólks.

Franskir í verkfall

GERT er ráð fyrir að mikil röskun verði á flugi um Frakkland næstu daga en samtök franskra flugumferðarstjóra hafa boðað 36 klukkustunda verkfall frá kl. 18 í dag og fram til kl. 6 á föstudagsmorgun. Sögðu yfirvöld að flug um París og suðausturhluta Frakklands yrði verst úti en haldið verður úti lágmarksþjónustu öryggisins vegna. Verkfallið er boðað til að mótmæla áformum samgönguráðherra Evrópusambandsins um að stuðla að samkeppni í flugumferðarstjórn. Telja franskir flugumferðarstjórar að þetta muni draga úr öryggi í flugi.