Sagt var frá því hér í blaðinu í gær að íslenzkur doktorsnemi í Danmörku, Kristján Leósson, hafi ásamt öðrum stofnað fyrirtæki þar í landi um hugmynd sína að nýrri ljósleiðaratækni.
Sagt var frá því hér í blaðinu í gær að íslenzkur doktorsnemi í Danmörku, Kristján Leósson, hafi ásamt öðrum stofnað fyrirtæki þar í landi um hugmynd sína að nýrri ljósleiðaratækni. Hugmynd Kristjáns gengur út á að fá ljós til að beygja fyrir horn á mjög stuttum vegalengdum og smækka þar með mjög alls konar íhluti ljósleiðarabúnaðar. Þetta getur gert búnaðinn minni, ódýrari í framleiðslu og einfaldari í notkun. Þannig gæti þessi tækni aukið notagildi ljósleiðaratækninnar enn frekar en þegar er orðið.

Kristján Leósson stundar doktorsnám við Tækniháskólann í Árósum en hafði áður lokið meistaraprófi í eðlisfræði við Háskóla Íslands. Einn af fyrrverandi kennurum hans við HÍ, Sveinn Ólafsson, segir í samtali við Morgunblaðið í gær að hefði Kristjáni verið kleift að stunda doktorsnámið hérlendis og tækjaaðstaða við HÍ leyft slíkar rannsóknir, hefði fyrirtækið allt eins getað orðið íslenzkt.

"Kristján varð að fara utan til að geta stundað þær rannsóknir sem hugur hans stóð til en uppgötvun hans kom þó eins og hliðarsproti við það og var ekki tengd því rannsóknarverkefni sem hann hafði valið," segir Sveinn Ólafsson. "Hefði Kristján haft þessa möguleika hér þá væri þetta nýja fyrirtæki íslenzkt og rannsóknir á þessu sviði hefðu fest sig í sessi hér og arðsemi slíkrar starfsemi er á við virði álvers eða virkjunar." Þetta er einkar umhugsunarverð ábending. Margir af vaxtarsprotum atvinnulífsins byggjast á vísindarannsóknum. Ef okkur tekst að byggja hér upp umhverfi, þar sem slíkar rannsóknir eru stundaðar, er líklegra að til verði ný atvinnutækifæri hér á landi tengd slíkum rannsóknum.

Í þessu ljósi verður það enn skýrara en áður að það er tímabær og rétt ákvörðun hjá stjórnendum Háskóla Íslands að leggja stóraukna áherzlu á rannsóknatengt framhaldsnám við skólann. "Það er útilokað að nútímaþjóðfélag fái staðizt sem sjálfstætt þjóðfélag nema það eigi sér menntastofnun þar sem rannsóknir eru settar númer eitt. Fyrirtæki landsins kalla æ meir á rannsóknir, bæði annarra aðila og síðan er starf margra fyrirtækjanna fólgið í rannsóknum," sagði Páll Skúlason háskólarektor þegar hann kynnti áform um aukið framboð námsleiða í framhaldsnámi fyrr á þessu ári.

Áform um þekkingarþorp, þar sem rannsóknastarfsemi og rekstur þekkingarfyrirtækja verður í sambýli, ætti jafnframt að stuðla að því að innlendar rannsóknir nýtist við uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra og atvinnurekstur og rannsóknastarf hafi styrk hvort af öðru.

Nauðsynlegt er að þessar áherzlur í starfi Háskóla Íslands njóti öflugs stuðnings bæði stjórnvalda og atvinnulífs, því að með þeim er stuðlað að því að skjóta fleiri stoðum undir efnahagslífið og bæta lífskjörin til framtíðar.

Handvirkt lýðræði og rafrænt

Ákvörðun félagsmálaráðherra um að hætta við að fella inn í frumvarp til breytinga á kosningalögum kafla, sem leyfir rafrænar kosningar, var til umræðu á ráðstefnu um rafrænar kosningar fyrir helgi. Var þessi ákvörðun, sem í fundarboði til fjölmiðla var sagt að hefði verið tekin í kjölfar ályktunar síðasta landsfundar Sjálfstæðisflokksins gegn slíkum kosningum, hörmuð á ráðstefnunni.

Á Íslandi er fulltrúalýðræði. Á fjögurra ára fresti ganga kjósendur að kjörborðinu og kjósa sína fulltrúa, sem síðan fara með pólitískt vald í umboði kjósenda sinna. Hið gamla kerfi, sem notað hefur verið við talningu atkvæða þar sem mörg hundruð manns hafa fumlaus lagst á eitt eftir að kjörkassar hafa verið opnaðir til að tryggja að vilji kjósenda komi fram, hefur gefið góða raun. Lýðræðið er hins vegar enn fyrirkomulag í mótun og hljótum við ávallt að leita leiða til að færa það nær kjósendum.

Hugmyndin um rafræna kosningu snýst hvorki um að hygla ákveðnum fyrirtækjum né að gera lítið úr því fyrirkomulagi, sem fyrir er. Í henni er fólginn möguleiki til að víkka lýðræðið. Eins og málum er nú komið kjósum við fulltrúa, sem síðan taka ákvarðanir í einstökum málum. Rafrænt fyrirkomulag eykurmöguleika á að koma á beinu lýðræði. Þegar er farið að gera tilraunir með rafrænar kosningar erlendis og sú leið var einnig farin í atkvæðagreiðslunni um Reykjavíkurflugvöll fyrr á þessu ári. Þá héldu sjálfstæðismenn rafrænt prófkjör á Seltjarnarnesi fyrir skömmu. Pétur Kjartansson, formaður kjörnefndar Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að af þeim 1.085 manns, sem kusu rafrænt, hafi enginn gert ógilt, en 55 atkvæði hafi verið ógild af 537 atkvæðum þeirra, sem kusu handvirkt. Hann bætir við að mikið öryggi sé í rafrænni kosningu, kjörskráin sé mun öruggari en með gamla laginu og algjör leynd hvíli yfir kosningu hvers og eins.

Ályktun sú sem samþykkt var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var svohljóðandi: "Fundurinn telur að framkvæmd kosninga á Íslandi sé nær hnökralaus og engin rök séu til þess að breyta þeirri aðferð við kosningar, sem hingað til hefur verið notuð. Þvert á móti hafi hún sýnt sig að vera örugg, fljótvirk, traust og auðveld í framkvæmd, bæði fyrir kjörstjórnir og ekki síst kjósendur."

Það er vitaskuld engin ástæða til þess að taka upp verra fyrirkomulag kosninga en verið hefur. Hins vegar er ekki þar með sagt að aðferðir, sem nýst hafi vel hafi áunnið sér þann sess að verða notaðar um aldur og ævi. Í framkvæmd þarf þó að huga að því að kjósendur í hverju bæjar- og sveitarfélagi sitji við sama borð þannig að ekki sé hætta á að hlutfall ógildra atkvæða verði misjafnt eftir kjörstöðum fyrir þá sök eina að stuðst sé við mismunandi kosningafyrirkomulag. En máttur vanans má ekki verða svo mikill að við látum ónotuð þau tækifæri, sem ný tækni veitir til að auka lýðræðið og efla.