Ingibjörg Hjartardóttir
Ingibjörg Hjartardóttir
Höfundur: Ingibjörg Hjartardóttir. Útgefandi: Mál og menning. 196 bls.
EF maður segir að þessi saga sé um blaðakonu sem skreppur norður í land til þess að taka viðtal við karl einn og sé þar enn tíu árum seinna, er það eins og að segja að Öskubuska sé saga um stelpu sem mátar skó og situr uppi með prins. Það er ekki nokkur leið að botna í orsakasamhenginu.

Ekki svo að skilja að Upp til Sigurhæða sé eitthvert einfalt ævintýri á við Öskubusku. Því fer fjarri. Hér er á ferðinni slíkur vefur að það er enginn aukvisi í örlaganornafræðum sem spinnur.

Ytri rammi sögunnar spannar eitt ár, sá innri nánast mannsaldur. Móðir ein, sem áður hafði starfað sem blaðakona, ritar dóttur sinni bréf. Það tekur hana eitt ár að skrifa bréfið sem skiptist í kafla, eitt í hverjum mánuði, frá janúar fram í desember. Í bréfinu segir hún sögu sína og sögu dótturinnar sem hún tapaði fyrir margt löngu og taldi sig hafa sætt sig við það. En þótt þær hafi ekki hist árum saman og hvorug leitað hinnar, hafa örlagaþræðir þeirra verið órjúfanlegir.

Vissulega verða atburðir norður í landi til þess að móðirin ákveður að fara þangað til þess að taka viðtal við mann sem hafði verið mikið í fréttum ári áður - en það er aðeins ytri tilgangur ferðarinnar. Eins og títt er í lífinu, er dýpri tilgangurinn konunni hulinn og það tekur hana mörg ár að átta sig á raunverulegu ástæðunni. Hún hefur sjálf ekki áttað sig á harmi sínum og söknuði; hvort, eða hvert, hún eigi að leita til að skilja sitt eigið lífshlaup og dótturinnar.

Samband dótturinnar við foreldrana hefur rofnað á unglingsaldri og það svo rækilega að þau hafa þurft að afskrifa hana. Það er eins og stúlkan hafi gengið í björg. Þá þróun má vel heimfæra upp á ýmislegt í okkar nútímaveruleika þar sem börn ganga foreldrum sínum úr greipum, verða eins og umskiptingar, ganga sjálfseyðingunni á hönd. Í sögunni bregðast foreldrarnir við hvort með sínum hætti; ást föðurins breytist í andúð sem smám saman brýtur hann niður, en móðirin viðurkennir ekki slíka andúð og spyr: "Getur móðir nokkru sinni viðurkennt það fyrir sjálfri sér að henni sé illa við barnið sitt?" Með henni býr alltaf von, þótt veik sé, og mynd dótturinnar er rækilega greipt í hjarta hennar. Þótt hún geri sér ekki grein fyrir því nándar nærri strax er það dóttirin sem verður til þess að hún fer norður. Hún eltir hverja vísbendingu um barnið sitt, sama hversu óljós hún er; meira að segja vísbendingar sem aðeins undirmeðvitundin nemur.

Í upphafi bókar vísar höfundurinn í þjóðsögurnar þar sem móðir skilur barn sitt eftir í bæjardyrunum og þegar hún kemur til baka eftir drykklanga stund, hefur barnið skipt um persónuleika og vísast má leggja það svo út að við foreldrar skulum varast að skilja börn okkar eftir með lykla um hálsinn á meðan við eigum annríkt annars staðar. En það er ekki hægt að láta staðar numið þar og jafnvel þótt þessi saga sé raunsönn mynd af nútímafjölskyldu, með rofin tengsl við fortíðina, losaraleg samskipti, einsemd og tengslaleysi - og að því er virðist tilviljanakennd tengsl við annað fólk, er hún síður en svo dapurleg. Það er einmitt þörfin fyrir að mynda tengsl og styrkja þau, sem reka móðurina áfram og þau tengsl sem hún myndar á vegferð sinni, eru öll skref í átt að markmiðinu.

Eins og með öll alvörulistaverk, býður þessi saga upp á endalausa túlkunarmöguleika. Tákn og tilvísanir sögunnar opna stöðugt nýjar myndir.

Frásögnin er samofin íslenskri þjóðsagnahefð á listilegan hátt. Hvergi man ég eftir að hafa séð nútímaskáldverk og þá arfleifð ganga svo rækilega upp.

Nútíminn og hefðin renna hvor inn í aðra áreynslu- og tilgerðarlaust. Ein túlkunin sem freistandi er að skoða byggir einmitt á þessum samruna hefðanna. Móðirin og dóttirin í sögunni eru tvær kynslóðir sem ekki þekkja arfleifð sína og forsögu. Líf þeirra er óljóst, skortir náin tengsl og fótfestu. Þær skilja ekki lífshlaup sitt og hljóta að verða hálfgerð reköld sem eyða árum og áratugum í að leita að þráðum sínum og spinna þá saman til þess að fá út heillega sjálfsmynd.

En þótt sjálfsmyndir séu óljósar og brotnar er persónusköpunin í sögunni sterk og skýr. Þótt hægt sé að skoða persónurnar sem táknmyndir, eru þær ljóslifandi, margþættar og flóknar. Þar eru sterkar konur sem ganga óhikað á vit örlaga sinna, án þess að tapa kvenleika sínum. En það þýðir ekki að karlarnir séu veikir. Þvert á móti. Lýsing þeirra er mögnuð. Það er eins og þeir hafi sprottið alskapaðir upp úr því mikilfenglega umhverfi sem er rammi sögunnar. Þeir eru dýrðlega karlmannlegir og samskipti kynjanna verða bæði áköf og erótísk Upp til Sigurhæða er ekkert venjulegt skáldverk. Þar segir margar sögur í einu; sögu móður og dóttur, sögu karls og konu, sögu lands og þjóðar, sögu manns og náttúru; sögu arfleifðar. Þar eru ástríðurnar bæði hreyfiaflið og það afl sem fær persónurnar til að staldra við. Sagan er eins og íslenska náttúran með sínu lognkyrra vori, tryllta vetri og öllu þar á milli. Hún er einstaklega vel skrifuð og svo ágeng að hún situr í manni dögum saman, svo margþætt að maður les hana aftur og aftur.

Súsanna Svavarsdóttir