Einar Már Guðmundsson
Einar Már Guðmundsson
eftir Einar Má Guðmundsson. Mál og menning, 2001. 137 bls.
NÝJASTA skáldverk Einars Más Guðmundssonar, Kannski er pósturinn svangur, er um margt óvenjulegt. Hið breiða form sögulegu skáldsögunnar, sem Einar hefur unnið með í undanförnum verkum sínum, s.s. Fótsporum á himnum og Draumum á jörðu, er hér lagt til hliðar og í staðinn teflt fram persónulegum, ef ekki hreinlega sjálfsævisögulegum mínimalisma í anda Nathalie Sarraute. Og þótt sú líking gangi kannski ekki nema takmarkaðan veg var ýmislegt í bókinni sem minnti mig á skáldkonuna frönsku; kannski sérstaklega sú formgerð minningabrota sem Einar nýtir, ævisögulegum glefsum og myndum bregður fyrir og hverfa síðan aftur, lauslegar tengingar, bæði þematískar og sögulegar, eru þó skapaðar og fæst því þegar upp er staðið nokkur heildarmynd úr sögusafninu.

Bókin samanstendur af tæplega fjörutíu stuttum köflum, og þótt oft fái lesandinn á tilfinninguna að um sjálfsævisögulegar frásagnir sé að ræða - þegar ljúfsárum minningum er lýst er tónninn gjarnan mjög persónulegur og stundum er sem við fylgjumst með höfundinum að störfum, bókstaflega horfum yfir öxlina á honum - er það fráleitt eina textategundin sem hér ber fyrir sjónir. Vangaveltur höfundar um ýmis mannleg málefni eru fyrirferðarmiklar og nokkur prósaverkanna má sennilega kalla örsögur; það er því óhætt að segja að undirtitill bókarinnar "sögur" nái ekki að fanga þá flóru sem fyrirfinnst innan spjalda bókarinnar.

En þótt vandasamt sé að skilgreina textabrotin leynir frásagnagleði höfundar sér ekki og nær Einar á köflum miklu flugi, ekki síst þegar hann er að kanna hugarlendur þeirra sem hafa "misst fótanna á því hála svelli sem tilveran er" eins og hann orðar það á einum stað í bókinni. Næmi Einars Más fyrir þessu umfjöllunarefni er mikið en nokkrir kaflar í nýju bókinni líkjast einmitt einna helst litlum textasprotum út úr Englum alheimsins. Tengsl má einnig greina við áðurnefndan sagnabálk og fyrri smásögur höfundarins. Þetta gerir nýju bókina enn áhugaverðari en ella fyrir þá sem þekkja sagnaheim Einars.

Kaflinn eða öllu heldur velvakandabréfið "Tóbaksreykingar á spítölum" er til að mynda áhugavert dæmi um hæfileika Einars til að koma á framfæri hugarheimi í fáum, skýrum dráttum. Þar ritar vistmaður á geðdeild harðort lesendabréf, sem í fyrstu virðist ætlað fjölmiðlum en reynist svo þjóna öðrum tilgangi, þar sem reykingabanni á geðdeildum landsins er mótmælt. Bréfritari lætur þó ekki yfirlýst viðfangsefni verða sér fjötur um fót, hann er brátt kominn út í aðra sálma og efnisgrein fram af efnisgrein, í textabroti sem er innan við tvær síður á lengd, ferðast lesandinn með vitund sem augljóslega er aðþrengd, og hefur kannski verið um langt skeið, og finnst nú nóg komið. Ritara bréfsins er herfilega misboðið en það er ekki bara reykingabannið sem hrjáir hann. "Um allan heim hrynja byggðir; og svo er einnig í höfðinu. Hvar er byggðastofnun hugans?" Ekki á geðdeildum, fær lesandi á tilfinninguna, þar sem ekki má einu sinni reykja.

En þunglyndið sem leynist undir haganlega orðaðri spurningunni kallast á við inngangsorð bókarinnar, sem eru tilvitnun í Sigfús Daðason: "Mannshöfuð er nokkuð þungt / en samt skulum við standa uppréttir." Ef textabrotin í bókinni eiga eitthvað sammerkt, utan við sögumann sem bregður víða fyrir og kallar sig Einar Má, er það einmitt myndin sem þau draga í sífellu upp af fólki sem hefur orðið þyngdin í höfðinu ofviða. Fólki sem hefur kúplað sig út úr grámóskulegum og oft grimmilegum hvunndeginum, ýmist með því að leggjast út, inn á geðdeild eða með því að segja afgerandi nei við lífið, og framið sjálfsmorð. Þessi þráður bókarinnar gefur mörgum sögunum mikið tilfinningagildi, samúð höfundar með þeim sem ekki geta samlagast reglum og boðum samfélagsins er mikil, en sömuleiðis vill Einari stundum fipast þegar of miklu er hlaðið inn í litla sögu sem fyrir vikið veldur ekki merkingarþunganum sem ætlast er til að hún beri.

"Raunveruleikinn er alltaf að koma raunsæinu á óvart," lýsir sögumaður yfir snemma í bókinni og er þar að vísa til hrapallegrar reynslu albanska fótboltaliðsins er það sótti landann heim um árið til að spila vináttuleik í knattspyrnu. Skírskotun orðanna er þó víðari því þau lýsa efnistökum og skáldskapareinkennum Einars vel þar sem heimildastuddur veruleikinn hefst upp í átt til æðri sannleika fyrir tilstilli listrænnar miðlunar. Frásagnirnar í bókinni sem hér er til umræðu má einmitt sjá sem tilraunir höfundar í þessum efnum; snaggaralegar og stuttorðar tilraunir um rithætti þar sem höfundur bregður sér í ýmissa kvikinda líki en staldrar hvergi lengi við, veltir fyrir sér stórum spurningum um lífið og snertir á mörgum þeim hugðarefnum sem hann þræðir í lengra máli í öðrum verkum sínum, og að mínu mati heppnast tilraunirnar yfirleitt vel. Þetta er lítil bók sem leynir á sér því hún reynist engan veginn jafn sveimhuga og ætla mætti í fyrstu.

Björn Þór Vilhjálmsson