Harry  skráir sig á spjöld Íslandssögunnar.
Harry skráir sig á spjöld Íslandssögunnar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞAÐ benti allt til þess að eitthvað stórt myndi gerast þegar Harry Potter og viskusteinninn yrði loksins frumsýnd. Öllu var til tjaldað. Fleiri sæti í boði en nokkru sinni áður og yfir 5 þúsund miðar farnir í forsölu.
ÞAÐ benti allt til þess að eitthvað stórt myndi gerast þegar Harry Potter og viskusteinninn yrði loksins frumsýnd. Öllu var til tjaldað. Fleiri sæti í boði en nokkru sinni áður og yfir 5 þúsund miðar farnir í forsölu.

Þegar talið var upp úr kassanum að loknum sýningum á sunnudagskvöldið lá það líka ljóst fyrir að nýtt frumsýningarmet hafði verið slegið. Hvorki fleiri né færri en 16.891 manns sóttu myndina frá föstudegi til sunnudags sem er 24% bæting á fyrra metinu sem Stjörnustríðsmyndin Ógnvaldurinn setti í ágúst 1999.

Þorvaldur Árnason, framkvæmdastjóri Sambíóanna, er vitanlega hæstánægður með viðbrögð íslenskra bíógesta við þessari fyrstu mynd um töfrastrákinn og vini hans.

"Það sem gladdi mig sérstaklega," sagði hann, "var að sjá alla fjölskylduna skemmta sér saman í bíó aðventuhelgina fyrstu. Það er mjög kærkomin sjón að sjá og alltof sjaldgæf orðin."

Þorvaldur bendir og á að nýja metið hljóti að teljast þeim mun stærra afrek í ljósi þess að veðurguðirnir voru síður en svo hliðhollir okkur yfir helgina: "Venjulega hefur vetrarveðrið fremur neikvæð áhrif á bíósóknina en svo virðist sem fólk hafi einsett sér að láta veðrið ekki koma í veg fyrir fyrstu kynni sín við Harry Potter í bíó."

Þorvaldur bendir og á þá mögnuðu staðreynd að 73% þeirra sem yfir höfuð fóru í bíó um helgina hafi séð Harry Potter og restin dreifst á hinar 31 myndirnar sem í boði voru.

Með nýja aðsóknarmetinu bætist Ísland í hóp fjölda annarra landa þar myndin hefur leikið sama leikinn en hún hefur sett nýtt frumsýningarmet í öllum nema tveimur af þeim Evrópulöndum þar sem hún hefur verið frumsýnd og til marks um yfirburðina bætti hún fyrra metið um 71% í Englandi og 65% í Portúgal.

"Af byrjuninni að dæma er allt útlit fyrir það að myndin komi til með að skipa sér meðal aðsóknarmestu mynda íslenskrar bíósögu," segir Þorvaldur að lokum brattur.

Eins og gefur að skilja fór heldur lítið fyrir hinum myndunum sem frumsýndar voru á föstudaginn, O, unglingaútfærslu á Othello Shakespeares, og rómantísku gamanmyndinni Good Advice.

skarpi@mbl.is