MERKILEGUR þáttur var í ríkissjónvarpinu sl. sunnudagskvöld. Fjallaði hann m.a. um merkingar fugla. Tilgangur slíkra merkinga er upplýsingasöfnun og rannsóknir. Þannig hafa menn öðlast vitneskju um hvílík ferðalög farfuglar leggjast í vor og haust.
MERKILEGUR þáttur var í ríkissjónvarpinu sl. sunnudagskvöld. Fjallaði hann m.a. um merkingar fugla. Tilgangur slíkra merkinga er upplýsingasöfnun og rannsóknir. Þannig hafa menn öðlast vitneskju um hvílík ferðalög farfuglar leggjast í vor og haust.

Tvennt var að mati Víkverja athyglisverðast í þættinum. Annars vegar að merkingar fugla eru merkilega gamlar. Þær hófust fyrir 100 árum og hérlendis fyrir meira en 70 árum. Kannski er þetta ekki langur tími í augum vísindanna en á þessum tíma hefur mikilli vitneskju verið safnað. Hitt atriðið er að hérlendis hafa ekki aðeins sérfræðingar staðið í þessum merkingum. Sjálfboðaliðar leggja þar drjúga hönd á plóginn. Það hlýtur að vera áhugavert verkefni. Að ferðast um kjörlendi fuglanna, kynnast háttum þeirra örlítið og vera jafnvel til gagns í leiðinni. Kannski Víkverji bjóði fram krafta sína í þessu verkefni.

Raunar var enn eitt merkilegt við þennan þátt. Undir lokin var bent á mikilvægi þess að eyða ekki umhugsunarlaust kjörlendi fugla. Var nefnt að hugmyndir um stórfellda skógrækt gætu spillt kjörlendi mófugla. Á það var líka bent hversu íslensk náttúra yrði fátæk ef mófuglum yrði útrýmt. Þarna er með öðrum orðum talað fyrir náttúruvernd og umhverfismálum gefinn gaumur. Minnti þessi áminning á skrif Guðmundar Páls Ólafssonar í bókum sínum, m.a. í Hálendinu í náttúru Íslands. Þar kemur höfundur inn á náttúruvernd nánast í hverjum kafla. Sýnir þetta hversu náttúruvernd og umhverfismál verða smám saman órjúfanlegir þættir í umfjöllun sérfræðinga um náttúruna. Og kannski ekki annað hægt.

NÚ liggja Danir í því. Þeir hafa tapað flöskumálinu fyrir Evrópusambandinu og veldi þess. Nú má Danaveldi með öðrum orðum ekki lengur neita því að bjóða drykki á dósum. Ekki banna lengur að flytja inn frá útlandinu gos eða bjór í dósum. Með því eru Danir að mati ESB að útiloka aðra en Tuborg og Carlsberg frá dönskum bjórmarkaði. Erlendum framleiðendur þykir ekki svara kostnaði að flytja bjórflöskur um langan veg til Danaveldis. Það er hins vegar í lagi í dósum því þær eru mun léttari. (Samkvæmt athugun Víkverja á bréfavigt blaðsins vegur Tuborg-dós 19 g en flaska undan Prins Kristian 163 grömm.) Hefði þó mátt ætla að danskur bjórmarkaður væri það stór að hann væri eftirsóknarverður með flöskum þrátt fyrir þyngslin. En Danir hafa nefnilega bannað þetta af umhverfisástæðum. Þeir nýta flöskurnar aftur og aftur. Það dugar hins vegar ekki ESB. Samkeppnis- eða viðskiptasjónarmið virðast sterkari umhverfissjónarmiðum. Danir verða því að koma sér upp móttökustöðvum, ákveða skilagjald og hefja endurvinnslu dósa. Þar fyrir utan er flöskubjórinn betri en dósabjór svo Danir hafa ýmis rök fyrir máli sínu. Er því slæmt að þeir skuli hafa látið í minni pokann. Menn geta þó huggað sig við að flöskurnar munu vart hverfa.

LÖGMÁL Murphys eru langt frá því gleymd eða upp urin en vegna plássleysis verður sá þáttur Víkverja að bíða næsta skammts.