FÉLAGSMÁLARÁÐ Akureyrarbæjar leggur áherslu á að tilraunaverkefni í heilsuvernd aldraðra sem nefnist heilsueflandi heimsóknir verði fram haldið, en það hefur staðið yfir á þessu og síðasta ári.
FÉLAGSMÁLARÁÐ Akureyrarbæjar leggur áherslu á að tilraunaverkefni í heilsuvernd aldraðra sem nefnist heilsueflandi heimsóknir verði fram haldið, en það hefur staðið yfir á þessu og síðasta ári. Verkefninu átti að ljúka um komandi áramót, en félagsmálaráð vill að framhald verði á enda sé árangurinn þegar orðinn sýnilegur.

Verkefnið varð til í kjölfar samnings við heilbrigðisráðuneytið um að Akureyrarbær tæki að sér rekstur Heilsugæslustöðvarinnar. Sá samningur rennur út um áramót og viðræður standa yfir um framhaldið. Félagsmálaráð leggur til að Akureyrarbær tryggi fjármagn til heilsueflandi heimsókna, náist ekki samningar.

Inga Eydal hjúkrunarfræðingur, annar starfsmaður verkefnisins, sagði að um væri að ræða verkefni í heilsuvernd aldraðra og væri markmið þess að efla aldraða í viðleitni sinni til að viðhalda heilbrigði og sjálfstæði sem lengst og eins væri verið að reyna vinnuaðferð í heilsuvernd aldraðra sem notuð hefur verið erlendis með góðum árangri. Um væri að ræða tilboð til aldraðra um að fá heimsókn heibrigðisstarfsmanns tvisvar á ári. Auk Ingu hefur Kristín Tómasdóttir iðjuþjálfi unnið við heimsóknirnar.

Í heimsóknunum er áhersla lögð á að veita upplýsingar og fræðslu um heilsufar, líferni og þjónustu við aldraða, greina áhættuþætti og þörf fyrir aðstoð og veita hana í tæka tíð.

Markhópurinn var í upphafi allir íbúar á upptökusvæði Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri, 75 ára og eldri, sem búa heima og hafa ekki heimahjúkrun, eða um 600 íbúar, en að sögn Ingu hafa viðtökur verið mjög góðar og um 75% hópsins hafa þegið heimsókn.

Þörf fyrir þjónustuna er fyrir hendi

"Það er þegar orðið ljóst að þörf er fyrir þessa þjónustu, því miður er sú hætta fyrir hendi að eldri borgarar einangrist að einhverju leyti og fólki finnst oft erfitt að hafa frumkvæði með að leita eftir þjónustu. Fólki þykir gott að vita af einhverjum sem það þekkir innan kerfisins sem það getur leitað til," sagði Inga. Árangur af fyrirbyggjandi heilsuvernd af þessu tagi sagði hún ómögulegt að meta eftir svo skamman tíma. Þó mætti benda á að 57% þeirra sem heimsóttir voru í annað sinn kváðust finna til aukinnar öryggiskenndar í kjölfar heimsóknanna. "Mikilvægur hluti þess að fólki líði vel er að það finni til öryggis, það viðhaldi sjálfstæði og færni. Margir nefndu að þeim þætti gott að vita af því að fylgst væri með líðan þeirra," sagði Inga.

Hún benti einnig á að í heimsóknunum hefði skýrt komið fram að viðhorf í samfélaginu væri á þann veg að eldri borgurum þætti mjög skorta á að fyrir þeim væri borin virðing. "Þetta var fólki greinilega ofarlega í huga og mörgum þykir erfitt að mæta þessum viðhorfum," sagði Inga.

Verkefnið hefur vakið athygli

Starfsaðferðir í líkingu við þessa eru þekktar t.d. í Danmörku, þar sem heilsueflandi heimsóknir eru lögbundin þjónusta, en þær hafa ekki verið reyndar hér á landi áður. Inga sagði að verkefnið á Akureyri hefði því vakið athygli en hópurinn sem að því stendur hefur kynnt það víða, með fyrirlestrum, á fagráðstefnum, fundum og málþingum. "Það hefur verið horft til okkar sem frumkvöðla á þessu sviði og því er ánægjulegt að félagsmálaráð vilji að haldið verði áfram á sömu braut," sagði Inga.