Sigurður Hermannsson og Jakob Björnsson tóku við viðurkenningum fyrir gott aðgengi í Flugstöðinni á Akureyri og að Glerártorgi. Lilja Ragnarsdóttir, formaður samstarfsnefndar, afhenti viðurkenningarnar.
Sigurður Hermannsson og Jakob Björnsson tóku við viðurkenningum fyrir gott aðgengi í Flugstöðinni á Akureyri og að Glerártorgi. Lilja Ragnarsdóttir, formaður samstarfsnefndar, afhenti viðurkenningarnar.
FLUGSTÖÐIN á Akureyri og Glerártorg hlutu viðurkenningu samstarfsnefndar um ferlimál á Akureyri, en hún var afhent við athöfn sem efnt var til í tengslum við alþjóðadag fatlaðra.
FLUGSTÖÐIN á Akureyri og Glerártorg hlutu viðurkenningu samstarfsnefndar um ferlimál á Akureyri, en hún var afhent við athöfn sem efnt var til í tengslum við alþjóðadag fatlaðra.

Lilja Ragnarsdóttir formaður samstarfsnefndarinnar afhenti viðurkenningarnar, en við þeim tóku þeir Sigurður Hermannsson hjá Flugmálastjórn á Akureyrarflugvelli og Jakob Björnsson hjá Glerártorgi. Í máli þeirra kom fram að viðurkenningin væri hvatning til að gera enn betur í framtíðinni hvað aðgengi fatlaðra varðar. Glerártorg var opnað fyrir rúmu ári og sagði Jakob að við hönnun þess hefði strax verið tekið á þessum málum. Sigurður sagði að tímabært hefði verið að bæta aðgengi um flugstöðina og hefði mið verið tekið af því við umfangsmiklar breytingar sem gerðar voru á húsakynnum nú fyrir skömmu. Báðir kváðust þeir stoltir setja upp skildi þá sem þeir veittu viðtöku og myndi þeim verða komið fyrir á áberandi stað í byggingunum.

Þroskahjálp á Norðurlandi og Sjálfsbjörg á Akureyri hvöttu stjórnvöld á alþjóðadegi fatlaðra til að hafa hönnun fyrir alla að leiðarljósi við allt skipulag, framkvæmdir, þjónustu og fyrirkomulag svo sem kostur væri. Þá voru þeir sem starfa við hönnun og skipulag húsnæðis, verslunar, þjónustu og samgangna hvattir til að hafa hönnun fyrir alla að leiðarljósi.