HALLDÓR Ásgrímsson (B) utanríkisráðherra sagði á Alþingi í gær að friðarferlinu í Mið-Austurlöndum, eins og það var hugsað, sé nánast lokið.
HALLDÓR Ásgrímsson (B) utanríkisráðherra sagði á Alþingi í gær að friðarferlinu í Mið-Austurlöndum, eins og það var hugsað, sé nánast lokið. Hann sagði sjálfsmorðsárásir Palestínumanna í Ísrael um liðna helgi skelfilegar, en harmaði um leið valdbeitingu vegna þeirra og kvaðst enga trú hafa á því að málið yrði leyst með valdi. Sagði utanríkisráðherra ekki unnt að líta á aðgerðir Ísraelsmanna nú sömu augum og aðgerðir Bandaríkjanna gegn hryðjuverkum í kjölfar árásanna á Bandaríkin 11. september sl.

Árásirnar ekki hluti af baráttunni gegn hryðjuverkum

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, hóf máls á ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs við upphaf þingfundar í gær og benti á að Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, hafi lýst því yfir nú að Ísraelar eigi í hinu alþjóðlega stríði gegn hryðjuverkum og hann hefði sakað heimastjórn Palestínu um að styðja hryðjuverk. Hafnaði Össur þessum málflutningi ísraelska forsætisráðherrans og innti utanríkisráðherra eftir hans áliti á þessum ummælum. Benti Össur á að mikill meirihluti Alþingis hefði stutt hina alþjóðlegu baráttu Bandaríkjanna gegn hryðjuverkum, en því færi fjarri að sá stuðningur næði til árása Ísraelsmanna nú. Vísaði hann m.a. til mikillar ábyrgðar Ísraels á því hvernig málum væri komið nú, þar sem stjórnvöld í landinu hefðu aldrei viljað standa við friðarsamkomulagið frá Ósló 1993 og stæðu fyrir margs konar óhæfuverkum og markvissum kúgunum í garð Palestínumanna. Hvatti formaður Samfylkingarinnar til þess um leið og hann fordæmdi árásir Hamas-samtakanna á saklausa borgara að Norðurlöndin beiti sér fyrir því að Ísraelsmenn verði knúnir til þess að standa við það samkomulag og nú þegar verði komið á samningaumleitunum til þess að koma í veg fyrir frekara blóðbað.

Samstarf við Norðurlöndin

Halldór Ásgrímsson sagði að utanríkisráðuneytið fylgist vel með gangi mála í Mið-Austurlöndum og m.a. hefði í því skyni verið haft samband við stjórnvöld á hinum Norðurlöndunum, en þau hefði mun betri aðstöðu til að fylgjast með þróun mála og meta af eigin raun alvöru málsins.

"Við hljótum að leggja á það áherslu, alþjóðasamfélagið, að koma því í gang á nýjan leik, því ekkert annað getur leyst þá alvarlegu deilu sem þarna er," sagði utanríkisráðherra.

Þeir þingmenn aðrir sem ræddu þessi mál lýstu allir yfir ánægju sinni með viðbrögð utanríkisráðherra. Ögmundur Jónasson (Vg) benti m.a. á að Ísraelsstjórn geri ekki greinarmun á herskáum harðlínuhópum og almennu löggæsluliði Palestínumanna. Allir væru settir undir sama hatt og skilgreindir sem hryðjuverkamenn. Lýsti Ögmundur yfir áhyggjum af skilningi ýmissa þjóðarleiðtoga, þar á meðal forseta Bandaríkjanna, að svo fremi sem Ísraelsmenn setji hryðjuverkastimpilinn á andstæðinga sína séu allar aðgerðir gegn þeim réttlætanlegar. Sagði hann þessa afstöðu í senn vera varasama og frumstæða.