UNDANÚRSLITALEIKIRNIR í bikarkeppni HSÍ í karlaflokki fara fram í kvöld þegar Haukar taka á móti Val á Ásvöllum og Fram sækir Stjörnuna heim í Garðabæ. Báður leikirnir hefjast kl. 20.

UNDANÚRSLITALEIKIRNIR í bikarkeppni HSÍ í karlaflokki fara fram í kvöld þegar Haukar taka á móti Val á Ásvöllum og Fram sækir Stjörnuna heim í Garðabæ. Báður leikirnir hefjast kl. 20. Morgunblaðið leitaði til Sigurpáls Árna Aðalsteinssonar, þjálfara Þórs á Akureyri, og bað hann um að spá í viðureignirnar. Sigurpáll segir að víst sé að báðir leikir verði hnífjafnir og spennandi en sennilegast sé að Haukar og Fram standi uppi sem sigurvegarar og mætist í úrslitaleik bikarkeppninnar í Laugardalshöll 16. febrúar á næsta ári.

Ég tel að möguleikar liðanna séu nokkuð jafnir," segir Sigurpáll um viðureign Hauka og Vals á Ásvöllum. "Þó hef ég einhvern veginn trú á að Haukarnir vinni og þá helst á seiglu og reynslu, hún vegi þungt þegar á hólminn verður komið. Jafnframt gæti ég trúað því að úrslit ráðist ekki fyrr en í framlengingu.

Þótt Valsliðið sé ungt að árum leikur það á tíðum eins og lið sem hefur yfir mikilli reynslu að ráða og er í raun bæði sterkt og skemmtilega leikandi lið," segir Sigurpáll og vill alls ekki útiloka möguleika Vals á sigri. "Víst er að ég tel leikinn verða jafnan og mikla skemmtun frá upphafi til enda."

Haukar og Valur hafa verið sterkustu lið deildarinnar fram til þessa og fátt sem bendir til þess að það breytist og þau verði meðal fremsu liða í kapphlaupinu um Íslandsmeistaratitilinn. Valsmenn töpuðu sínum fyrsta leik á Íslandsmótinu sl. föstudag á móti ÍBV í Eyjum en Haukar eru ósigraðir.

Haukar unnu HK í átta liða úrslitum í framlengdum leik á heimavelli en Valur vann KA einnig í jafnri viðureign á Hlíðarenda.

Liðin hafa ekki mæst á Íslandsmótinu og því að sögn Sigurpáls enn forvitnilegra en ella að sjá hver styrkleiki liðanna er á þessari stundu. "Haukar hafa hingað til ekki leikið neinn afburða handknattleik en eigi að síður gert það sem þurft hefur til þess að vinna."

Markvarsla og sterk vörn er aðal beggja liða að mati Sigurpáls, en þó sérstaklega hjá Val. "Styrkur Vals liggur í góðri markvörslu og varnarleik. Eins eru þeir fljótir upp í hraðaupphlaup hvenær sem kostur gefst. Þar af leiðandi eru þeir fljótir að refsa andstæðingum sínum fyrir hver þau mistök sem gerð eru í sókninni.

Haukar búa yfir mikill reynslu og hafa einnig yfir stærri hóp leikmanna að ráða. Þannig að ef kemur til framlengingar hefur Viggó Sigurðsson, þjálfari Hauka, úr fleiri mönnum að spila. Það gæti reynst honum dýrmætt þegar á líður í jöfnum og hörðum slag," sagði Sigurpáll.

Vörn og markvarsla ræður úrslitum í Garðabæ

"Það sem er hvað skemmtilegast við leik Stjörnunnar og Fram er að bæði lið eru á mikilli uppleið eftir að hafa átt erfitt uppdráttar í upphafi leiktíðar. Það gerir viðureign liðanna mjög forvitnilega og ekki síður spennandi og skemmtilega en hinn leik undanúrslitanna," segir Sigurpáll um viðureign Stjörnunnar og Fram. Stjarnan lagði Aftureldingu í jöfnum leik í Garðabæ í átta liða úrslitum á sama tíma og Fram lagði ÍR á fremur auðveldan og óvæntan hátt á heimavelli. "Bæði Stjarnan og Fram hafa öðlast aukið sjálfstraust með ágætri frammistöðu upp á síðkastið.

Framliðið leikur um þessar mundir mjög góðan varnarleik og hefur markvörð sem getur varið mjög vel. Takist Fram að halda sínu striki að þessu sinni vinnur það leikinn og tryggir sér sæti í úrslitum," segir Sigurpáll sem lék með Fram fyrir tæpum fjórum árum frægan bikarúrslitaleik með Fram gegn Val.

"Stjarnan er í virkilegri framför og liðið er að verða afar skemmtilegt. Hornamennirnir, Zotlán Beláný og David Kekelia, eru góðir og með þeim eru ungir strákar sem leikið hafa mjög vel upp á síðkastið. Þrátt fyrir að Magnús Sigurðsson sé meiddur hefur það ekki veikt liðið svo mjög, yngri menn hafa komið inn í hans stað og staðið sig vel - sýnt að það kemur maður í manns stað.

Síðan má ekki gleyma því að Birkir Ívar Guðmundsson, markvörður Stjörnunnar, hefur varið vel upp á síðkastið. Ljóst er að hans frammistaða gæti ráðið miklu um úrslit leiksins.

Leikurinn gæti þróast í kapphlaup um það hvort liðið leikur betri vörn og hefur betri markvörslu. Á þessum atriðum ráðast sennilega úrslitin í Garðabænum," segir Sigurpáll Árni Aðalsteinsson, þjálfari Þórs á Akureyri.

Ívar Benediktsson skrifar