Svanfríður Jónasdóttir
Svanfríður Jónasdóttir
Landsfundur Samfylkingarinnar, segir Svanfríður Jónasdóttir, lagði á það áherslu að lýðræðisleg mannréttindi innflytjenda væru tryggð.
SAMKVÆMT upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun voru erlendir ríkisborgarar hér á landi 8.824, eða um 3,1% af íbúafjöldanum, í upphafi þessa árs og hefur hlutfallið hækkað töluvert á undanförnum árum. Þá kemur fram að um 8% kvenna á aldrinum 20-29 ára sem búsettar eru hér á landi eru erlendir ríkisborgarar.

Erlendir ríkisborgarar eru mjög misdreifðir um landið. Flestir eru þeir á höfuðborgarsvæðinu en hlutfallið er hins vegar langhæst á Tálknafirði, 19%, og Bakkafirði, 16%. Fast á eftir koma síðan Ásahreppur með 11% og Þórshafnarhreppur með 10%. Hlutfall erlendra ríkisborgara er meira en tvöfalt landsmeðaltal, eða yfir 6,2%, í 25 sveitarfélögum. Í þessum sveitarfélögum búa nær 17.000 manns, þar af 1.236 erlendir ríkisborgarar. Þjóðhagsstofnun telur að ef spá stofnunarinnar um framvindu íbúaþróunar það sem eftir er af árinu gengur eftir muni erlendum ríkisborgurum á vinnumarkaði fjölga um 1.500.

Þátttaka í sveitar- stjórnarkosningum

Það er eðlilegt að íslenskir ríkisborgarar hafi einir kosningarétt og kjörgengi í alþingiskosningum og forsetakosningum. Öðru máli gegnir um kosningar til sveitarstjórnar og atkvæðagreiðslur sem miðast við kjörskrá í sveitarstjórnarkosningum. Þótt erlendur ríkisborgari kjósi að halda ríkisfangi sínu á hann heima í íslenska sveitarfélaginu meðan hann dvelst hér.

Að frumkvæði Norðurlandaráðs var sú skipan tekin upp á árunum 1976-82 að norrænn ríkisborgari í öðru norrænu landi hefur kosningarétt og kjörgengi í sveitarstjórnarkosningum. Í frumvarpinu 1982 þegar þessi skipan var lögfest hérlendis var bent á að þessir menn greiddu skatta og skyldur til jafns við ríkisborgara landsins, og talið að kosningaréttur til sveitarstjórnar snerti ekki "fullveldis- eða þjóðernissjónarmið á sama hátt og ef um þingkosningar væri að ræða. Þá eru tengsl íbúa og sveitarstjórna náin". Athyglisvert er að meginhluti þeirra raka sem fyrir um tveimur áratugum þóttu eiga við um Norðurlandabúa eiga nú við um ríkisborgara á EES, og raunar í síauknum mæli um heimsþorpið allt.

Síðan þessari skipan var komið á um Norðurlönd hafa Finnar, Danir, Norðmenn og Svíar gengið lengra. Í Danmörku og Svíþjóð er héraðskosningum þannig háttað að allir norrænir menn og borgarar ESB-landa hafa kosningarétt og kjörgengi sem miðast við sömu búsetuskilyrði og við eiga um innlenda kjósendur. Aðrir erlendir ríkisborgarar verða að hafa dvalist í landinu í þrjú ár. Finnar hafa sömu skipan, en setja aðeins tveggja ára búsetuskilyrði. Þessi ríki eiga aðild að Evrópusambandinu og taka því sérstakt tillit til ESB-borgara, en um það er þó engin almenn regla eða samningar innan ESB. Í Noregi, sem hefur sömu stöðu og Ísland í Evrópumálum, hafa norrænir menn sama rétt í héraðskosningum og Norðmenn en réttur allra annarra er bundinn þriggja ára búsetuskilyrði.

Frumvarp Samfylkingarinnar

Landsfundur Samfylkingarinnar lagði á það áherslu að lýðræðisleg mannréttindi innflytjenda væru tryggð. Á 126. þingi flutti Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingarinnar, frumvarp til breytinga á lögum um kosningar til sveitarstjórna þar sem lagt er til að allir erlendir ríkisborgarar eigi þann rétt eftir þriggja ára búsetu að taka þátt í sveitarstjórnarkosningum. Frumvarp sama efnis var endurflutt nú í haust af þingmönnum Samfylkingarinnar. Samþykkt þess væri mikilvægur áfangi í að tryggja lýðræðisleg mannréttindi innflytjenda.

Framteljendur með erlent ríkisfang voru 7.057 á síðasta ári og erlendum ríkisborgurum með atvinnutekjur fjölgaði um 17,8% milli ára. Erlendir ríkisborgarar setja því sífellt meiri svip á atvinnulífið og eru mikilvægir útsvarsgreiðendur í mörgum sveitarfélögum. Því er eðlilegt að þeir hafi með kosningarétti til sveitarstjórna áhrif á þróun sinna sveitarfélaga eins og aðrir íbúar og að tekið sé tillit til þarfa þeirra eins og annarra íbúa sveitarfélagsins. Þá verður það líklegra að hér verði fjölmenningarleg samfélög þar sem "fólk af íslenskum ættum og erlendum blómstrar saman án tillits til uppruna og íslensk menning auðgast með samleik strauma frá allri heimsbyggðinni".

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.