Osama bin Laden styrkti Mohammed Omar í þeirri trú að hann væri arftaki Múhameðs spámanns og trúarlegur leiðtogi allra múslíma.
Osama bin Laden styrkti Mohammed Omar í þeirri trú að hann væri arftaki Múhameðs spámanns og trúarlegur leiðtogi allra múslíma.
MÚLLANN Mohammed Omar stefndi að því að verða emír Afganistans og andlegur og pólitískur leiðtogi allra múslíma. Hann klæddist jafnvel skikkju, sem talin er hafa verið í eigu Múhameðs spámanns, til að sýna að hann væri verðugur arftaki hans.

MÚLLANN Mohammed Omar stefndi að því að verða emír Afganistans og andlegur og pólitískur leiðtogi allra múslíma. Hann klæddist jafnvel skikkju, sem talin er hafa verið í eigu Múhameðs spámanns, til að sýna að hann væri verðugur arftaki hans.

Þetta gerðist 4. apríl 1996 þegar talibanar voru að ná mestum hluta Afganistans á sitt vald. Skikkjan var geymd í helgidómi í Kandahar og hafði ekki verið snert frá því á fjórða áratug síðustu aldar.

Múllann hélt á skikkjunni á húsþaki fyrir framan hóp fylgismanna sinna. Hann fór síðan í skikkjuna og talið er að hann sé eini maðurinn fyrir utan spámanninn sem hefur klæðst henni.

Atburðurinn var tekinn upp á myndband þótt Omar hefði síðar bannað allar myndatökur af fólki og dýrum.

Omar lýsti því síðan yfir að hann væri Amir-ul-Momineen, "leiðtogi hinna trúuðu". Enginn hafði borið þann titil frá fjórða kalífanum, sem var uppi fyrir rúmum 1.000 árum og var talinn þiggja vald sitt frá Múhameð spámanni.

"Nýr kalífi"

Þennan sama mánuð sneri Osama bin Laden aftur til Afganistans, en hann hafði barist með Mohammed Omar gegn sovéska innrásarhernum á níunda áratugnum. Stjórnvöld í Súdan höfðu vísað bin Laden úr landi og hann hafði verið sviptur ríkisborgararétti í heimalandi sínu, Sádi-Arabíu. Afganistan var líklega eina landið í heiminum þar sem bin Laden gat fengið athvarf og stuðning.

Bin Laden var iðinn við að skjalla Omar og styrkti hann í þeirri trú að Afganistan væri miðstöð nýs íslamsks heimsveldis, að sögn embættismanna sem hafa fylgst með sambandi þeirra. Þegar bin Laden hélt langa ræðu um "heilagt stríð" múslíma í janúar gaf hann til kynna að Omar væri "nýr kalífi", æðsti valdsmaður allra múslíma og réttmætur arftaki Múhameðs spámanns.

"Ég tel að bin Laden hafi sannfært þennan þorpsbúa um að hann ætti að hrinda af stað byltingu út um allan heim," sagði fyrrverandi sendiherra Pakistans í Kabúl, einn örfárra útlendinga sem fengu að heimsækja Omar.