3. janúar 2002 | Viðskiptablað | 567 orð

Velgengni fyrirtækja

"Í þeirri miklu samkeppni sem ríkir í heiminum í dag eru margir þættir mikilvægir fyrir velgengni fyrirtækja. Það eru hins

Philip A. Fisher var helst þekktur fyrir grunngreiningu í verðmati á fyrirtækjum og vaxtarmöguleikum þeirra.
Philip A. Fisher var helst þekktur fyrir grunngreiningu í verðmati á fyrirtækjum og vaxtarmöguleikum þeirra. Bókin Common Stocks and Uncommon Profits, sem fyrst var gefin út árið 1958, inniheldur helstu þætti sem Fisher taldi skipta máli varðandi val á hlutabréfum fyrirtækja. Hann skipti þeim þáttum í fimmtán atriði sem hann taldi nauðsynlegt að væru í lagi hjá fyrirtækjum til að fjárfestingar í þeim gætu skilað viðunandi arðsemi. Fisher einblíndi aðallega á þætti sem beindust að auknum vexti og yfirburðum á sínu sviði hjá fyrirtækjum. Hagstætt rekstrarumhverfi fyrirtækja, starfsmenn þeirra og stjórnendur er í hnotskurn það sem þarf að vera fyrir hendi til að fyrirtæki standist kröfur áðurnefndra fimmtán atriða. Dell Computers er gott dæmi um fyrirtæki sem uppfyllti að mestu öll fimmtán atriðin fyrir nokkrum árum, með framleiðslu- og sölutækni sem bar af hjá tölvuframleiðendum. Þrátt fyrir hið gífurlega fall sem átt hefur sér stað á gengi fyrirtækja í tæknigeiranum undanfarið hefur gengi þess fyrirtækis tífaldast síðastliðin 5 ár. Til gamans má benda á að ef beita ætti þessari tækni varðandi grunngreiningu fyrirtækja á íslenskum hlutabréfum virðist Össur m.a. standast vel þær kröfur sem Fisher lagði áherslu á.

Fisher lét sér ekki nægja að lesa sér til um fyrirtækin sem hann fjárfesti í, heldur heimsótti hann þau iðulega. Slíkt er auðvitað tímafrekt en ávöxtunin getur að sama skapi verið gjöful. Ólíkt þeirri víðteknu skoðun að dreifa eigi fjárfestingum sem víðast, sem er næstum eins og trúarbrögð í fjárfestingarráðgjöf samtímans, heldur Fisher því fram að ekki eigi að dreifa fjárfestingum um of. Þess í stað telur Fisher að fjárfestir ætti, eða fjárfestingarráðgjafi hans, að einbeita sér að þeim fjárfestingum sem þeir teldu vera bestar og fylgjast þeim mun betur með þeim. Samhliða grunngreiningu á fyrirtækjum lagði Fisher áherslu á tímasetningu á kaupum hlutabréfa. Reynslan hafði kennt honum að góð og stöndug fyrirtæki gætu reynst vera slæmir fjárfestingarkostir þrátt fyrir að þau væru ekki hátt metin. Því skipti máli að fylgja ákveðnum reglum varðandi kaup og sölu. Meðal þeirra reglna var að fylgja ekki straumnum, enda segir hann að "einn af bestu fjárfestum sem ég hef á ævinni kynnst sagði mér fyrir mörgum árum, að á verðbréfamörkuðum skipti gott taugakerfi jafnvel enn meira máli en góður heili". Þar vísar hann í að grunngreining má síns lítils ef maður getur ekki staðist straum markaðarins. Frekar eigi að einbeita sér að því hvort markaðir van- eða ofmeti ýmsar atvinnugreinar því þar gætu kauptækifæri hafa skapast.

Í útgáfunni sem núna fæst, útgefin árið 1996, eru einnig önnur skrif hans, Conservative Investors Sleep Well og Developing An Investment Philosophy. Fyrri hlutinn er beint framhald af grunngreiningu hans. Síðari hlutinn er afar áhugaverð lesning um hvernig Fisher hóf feril sinn sem fjárfestingarráðgjafi og hvaða áhrifavaldar mótaðu skoðanir hans sem urðu að hornsteini fjárfestingarstefnu hans.

Það hefur löngum verið sagt að Warren Buffet sé einn mesti snillingur síðustu áratuga hvað fjárfestingar varðar. Lærimeistari Buffet var Benjamin Graham, höfundur sígildu fjárfestingabókarinnar The Intelligent Investor. Graham einblíndi þar aðallega á stærðfræðilega þætti varðandi hlutabréf og fann þannig væna fjárfestingarkosti sem skiluðu góðri arðsemi án mikillar áhættu. Sú bók er nauðsynleg lesning fyrir alla þá sem vilja læra helstu þætti greininga fjárfestinga frá sjónarhorni. Hún dugar þó fjárfestum skammt án þekkingar á öðrum drifkröftum sem hafa áhrif á velgengni fyrirtækja. Common Stocks and Uncommon Profits er tilvalinn byrjunarreitur til að fræðast um þá drifkrafta enda hefur Buffet nýtt sér þá speki sem Fisher mótaði í fjárfestingum.

mixa@sph.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.