MJÖG góð loðnuveiði var á miðunum suðaustur af landinu í fyrrinótt en í gærmorgun fór veður að versna og héldu skipin því í land. Skipin voru að veiða við Hvalbakinn svokallaða og búast sjómenn við að loðnan verði gengin upp á landgrunnið um leið og veður lægir.

Hrognafylling loðnunnar eykst nú jafnt og þétt og var hún um 13,5% í loðnunni sem barst á land í gær. Frysting hinnar verðmætu Japansloðnu hefst vanalega þegar hrognafyllingin nær um 15% og því má búast við að Japansfrystingin komist í fullan gang strax um næstu helgi ef gæftir leyfa. Hjá Tanga hf. á Vopnafirði hófst hinsvegar frysting á Japansmarkað í fyrrinótt. Að sögn Einars Víglundssonar, frystihússtjóra, var hrognafylling loðnunnar um 13% en japanskur eftirlitsmaður hafi engu að síður viljað hefja frystingu. "Frystingin hefst oft þó að hrognafyllingin sé ekki alveg komin í 15%. Loðnan var nokkuð smá, um 60 stykki í kílói og því nokkuð erfitt að flokka hana, en gæði hennar að öðru leyti mjög góð. Við frystum á milli 20 til 30 tonn og höldum áfram að frysta á Japan af fullum krafti um leið og veiðar hefjast. Við erum búnir að frysta um 1.500 tonn af loðnu á Rússland frá áramótum og hefðum viljað vera búnir að frysta meira, en veður hefur hamlað veiðum töluvert undanfarnar vikur," sagði Einar.

570 þúsund tonn eftir af kvótanum

Samkvæmt samantekt Samtaka fiskvinnslustöðva hafa íslensku loðnuskipin nú samtals borið um 251 þúsund tonn af loðnu á land frá áramótum. Að sumar- og haustvertíðunum meðtöldum hafa þá veiðst um tæp 400 þúsund tonn af loðnu á fiskveiðiárinu. Þó er enn nóg eftir af kvótanum, alls um 570 þúsund tonn. Þar að auki hafa erlend skip landað hér um 5 þúsund tonnum á árinu. Mest hefur borist af loðnu til Hraðfrystihúss Eskifjarðar eða rúm 40.600 tonn. SR mjöl á Seyðisfirði hefur tekið á móti rúmum 35 þúsund tonnum og Síldarvinnslan hf. á Neskaupstað um 31.500 tonnum.

"Aldrei nógu mikið"

"Ég held að ég verði að segja að það hafi veiðst vel í janúar en auðvitað má segja sem svo að við séum aldrei með nógu mikið," sagði Sveinn Hjálmarsson, skipstjóri á Kaldbaki EA, ísfisktogara ÚA, á heimasíðu félagsins, en skipið var þá að veiðum suðaustur af landinu. Sveinn sagði að á fyrstu vikum ársins sé jafnan heldur rólegt yfir veiðinni, enda geri brælur mönnum lífið leitt. Fyrstu vikur þessa árs hafi hins vegar verið skaplegar og oft gefið ágætlega til veiða. Það sem af er þessu ári hefur Kaldbakur nær eingöngu verið á þorskveiðum. Sveinn man tímana tvenna og þegar hann var spurður um hvernig ástandið væri á þorskstofninum sagði hann að stofninn væri sveiflum háður. Eitt árið hefðu menn mikið talað um hversu stór þorskurinn væri, en nú væri annað uppi á teningnum.