Art Schalk, framkvæmdastjóri Outcome, segir kerfið henta jafnt stórum sem smáum fyrirtækjum og stofnunum.
Art Schalk, framkvæmdastjóri Outcome, segir kerfið henta jafnt stórum sem smáum fyrirtækjum og stofnunum.
VEFKANNANAKERFIÐ Outcome gerir notendum þess mögulegt að framkvæma vefkannanir á hraðan, einfaldan og ódýran hátt.

VEFKANNANAKERFIÐ Outcome gerir notendum þess mögulegt að framkvæma vefkannanir á hraðan, einfaldan og ódýran hátt. Með Outcome kerfinu er hægt að framkvæma opnar og lokaðar vefkannanir á vefsíðum og einnig að senda kannanir beint til svarenda í tölvupósti. Niðurstöður úr könnunum birtast á sérstöku svæði á Outcome vefþjónum í myndrænu formi og getur könnuður fylgst með niðurstöðum á rauntíma. Notandinn fær sérstakt notendanafn og lykilorð til að komast inn á sitt eigið svæði. Outcome tryggir einnig að öll svör séu órekjanleg og fylgi reglum Persónuverndar.

Vefur samskiptalausnir fékkstyrk úr nýsköpunarsjóðnum Snjallræði á sínum tíma til að vinna úr hugmyndinni að Outcome. Art Schalk, framkvæmdastjóri Outcome, segir að Outcome sé fyrsta íslenska vefkannanakerfið á markaðnum. Það henti jafnt stórum sem smáum fyrirtækjum og stofnunum. Auðvelt sé að framkvæma skyndikannanir á t.d. ánægju, launakjörum, vilja og óskum og öðru þess háttar meðal starfsfólks, viðskiptavina, birgja eða félagsmanna. Hann segir að svarhlutfall sé oft nokkuð hátt í tölvupóstskönnunum vegna þess hvað svarendur séu allajafna fljótir að svara og senda, og vegna þess að þeir geti svarað þegar þeim henti.

Mjög góðar viðtökur

Hluti Outcome vefkannanakerfisins er biðlaraforrit sem fæst ókeypis á Netinu en til að geta framkvæmt kannanir þarf notandinn að kaupa aðgang að miðlaraforriti. Með kerfinu fylgja fimm tilbúnar vefkannanir, safn spurninga, ásamt 20 bakgrunnsspurningum, sem unnar voru í samstarfi við félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Notendur geta einnig búið til sínar eigin spurningar og kannanir og geymt þær.

Art Schalk segir að ýmsir kostir séu við að gera vefkannanir. Í fyrsta lagi geri kerfið kleift að kanna ýmis mál á hraðan og þægilegan hátt meðal viðskiptavina og starfsmanna fyrirtækja, stofnana og samtaka. Innan 48 klukkutíma liggi oftast marktækar niðurstöður fyrir sem byggja megi ákvarðanir á. Í öðru lagi sé mögulegt að nálgast u.þ.b. 70-80% íslenskra neytenda í gegnum tölvupóst eða vefsíður og að hlutfall þeirra sem hafi netaðgang fari hækkandi. Outcome gefi fyrirtækjum og stofnunum einnig möguleika á að gera tíðari og fjölbreyttari kannanir en áður á styttri tíma og ódýrari. Þá segir hann kerfið afar einfalt og að notendur Outcome þurfi ekki að vera tölvusérfræðingar eða aðferðafræðingar.

Að sögn Art Schalk hafa viðtökur Outcome vefkannanakerfisins verið afar góðar og notendahópurinn fjölbreyttur. Dæmi um fyrirtæki og stofnanir sem nýti kerfið nú þegar séu Samtök atvinnulífsins, Deloitte & Touche, Háskólinn í Reykjavík, Landsvirkjun, ÍMARK, Skýrr og Tæknifræðingafélag Íslands. Kerfið henti vel fyrir starfsmannastjóra og markaðsstjóra, en Outcome sjái einnig um framkvæmd kjarakannana fyrir ýmis félög og samtök í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Outcome var fyrst kynnt í desember á síðasta ári og segir Art Schalk að hinar góðu viðtökur lofi góðu um framhaldið.

Hugbúnaðarfyrirtækið Vefur samskiptalausnir er með höfuðstöðvar á Selfossi og útibú í Reykjavík. Það var stofnað á árinu 1997. Hjá fyrirtækinu starfa nú 14 manns.