SEXMENNINGARNIR í sjónvarpsþáttunum Friends hafa samþykkt að leika í níundu og síðustu þáttaröðinni. Samkvæmt fréttatilkynningu frá Warner Bros. fær hvert þeirra um 102 milljónir króna fyrir hvern þátt, fyrir utan 1-2%, af hagnaði söluvarnings.

SEXMENNINGARNIR í sjónvarpsþáttunum Friends hafa samþykkt að leika í níundu og síðustu þáttaröðinni. Samkvæmt fréttatilkynningu frá Warner Bros. fær hvert þeirra um 102 milljónir króna fyrir hvern þátt, fyrir utan 1-2%, af hagnaði söluvarnings. Þá mun ameríska sjónvarpsstöðin NBC sem sýnir þættina vestanhafs hafa tryggt sér sýningarréttinn með því að samþykkja að borga framleiðendunum, Warner Bros., 663 milljónir króna fyrir hvern þátt af Vinum. Þar með eru Vinir orðnir dýrmætustu hálfrar stundar sjónvarpsþættir sögunnar.

Jeff Zucker dagskrárstjóri NBC sagði samninginn þann auðveldasta sem hann hefði gert.

"Allir aðilar vildu að samningar myndu takast. Við viljum öll að þættirnir yfirgefi aðdáendur sína og sjónvarpsskjáinn með reisn og glæsibrag."