Teri Hatcher í kvikmyndinni Spy Kids frá 2001.
Teri Hatcher í kvikmyndinni Spy Kids frá 2001.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BANDARÍSKA leikkonan Teri Hatcher, sem stödd er hér á landi í tilefni fyrsta V-dagsins á Íslandi í dag, 14. febrúar, kemur fram í Borgarleikhúsinu í kvöld, þar sem flutt verður dagskrá með söng, dansi, leik og tónlist ofl.

BANDARÍSKA leikkonan Teri Hatcher, sem stödd er hér á landi í tilefni fyrsta V-dagsins á Íslandi í dag, 14. febrúar, kemur fram í Borgarleikhúsinu í kvöld, þar sem flutt verður dagskrá með söng, dansi, leik og tónlist ofl. Markmið V-dagssamtakanna er að binda endi á ofbeldi gegn konum um allan heim og segjast samtökin munu vinna að því markmiði þar til því hefur verið náð.

Til að varpa upp mynd af ferli Hatchers má nefna að hún hefur leikið í á annan tug kvikmynda, þ.á m. "Spy Kids" með Antonio Banderas, "Tango and Cash" með Sylvester Stallone og Kurt Russell og James Bond myndinni "Tomorrow Never Dies" með Pierce Brosnan. Einnig hefur hún leikið í Seinfeld-þáttunum vinsælu og þá eru ónefndar sjónvarpsþáttaraðirnar vinsælu um Ofurmennið "Louis and Clark".

Dagskráin í Borgarleikhúsinu hefst í kvöld kl. 19.30 þar sem Hatcher flytur atriði sem nefnist "Fullnægingareintal", sem er hluti úr leikritinu Píkusögur eftir Eve Ensler, stofnanda V-dagssamtakanna, sem standa fyrir V-deginum. Samtökin voru stofnuð 1998 en það var í gegnum Píkusögur sem Hatcher kynntist samtökunum, þegar hún lék í uppfærslu leikritsins á Broadway í New York. Upp frá því hefur hún lagt lóð sín á vogarskálarnar í baráttunni gegn kvennaofbeldi.

Margir karlar tregir til að koma á Píkusögur

"Ég minnist viðbragða karlkyns áhorfanda að Píkusögum, sem óskaði þess að hafa kynnst inntaki leikritsins á sínum yngri árum svo hann hefði náð betur til kvenna," segir Hatcher. "Margir karlar voru mjög tregir til að koma á sýninguna og vissu ekki á hverju var von, en yfirleitt skemmtu þeir sér hið besta, þegar á hólminn var komið."

Markmið V-dagssamtakanna, að binda enda á ofbeldi gegn konum, hlýtur að teljast háleitt markmið, en telur Hatcher að því verði einhverntíma náð?

"Ég trúi því og vona að öll búum við yfir getu til að láta ekki eigingirni og óöryggi stjórna hegðun okkar og við þurfum af þeim sökum ekki að koma fram hvert við annað á þann hátt sem við gerum," segir hún.

Aðspurð hvort ofbeldi gegn konum sé nægilega vel skilgreint vandamál, segir hún erfitt að segja til um það, enda sé mismunandi hvaða augum það er litið milli ólíkra samfélaga. "Í menningu sumra samfélaga er ekki einu sinni litið á konur sem óæðri körlum heldur eru þær nánast einskis verðar. Það er því mikið verkefni framundan að breyta þess konar hugsunarhætti."

Hatcher segist trúa sterkt á einstaklingsábyrgð hvers og eins þegar hún er innt eftir því hvort þörf sé á lagabreytingum til að ná fram markmiðum V-dagssamtakanna. "Ég veit ekki hversu vænlegt það er til árangurs að yfirvöld segi þegnunum hvernig þeir eiga að haga sér. Fólk verður að trúa á góða hegðun og þannig breytast hlutirnir," segir hún.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, efndi til móttöku í fyrradag á Bessastöðum í tilefni V-dagsins og varpaði lofsorði á inntak hans. Sagði hann að ofbeldi gegn konum hérlendis væri vandamál í samfélaginu sem væri erfitt að viðurkenna og væri því sterk þörf á að breiða út boðskap V-dagssamtakanna. Hann fagnaði komu Hatchers sérstaklega og hafði á orði að vanalega væru erlendum gestum sýnd falleg náttúra landsins en vandamál landsins sjaldnar rædd við þá.

Í lokin má þess geta, að þótt koma Hatchers tengist vissulega ofbeldisvandamálinu, lét hún tækifæri til náttúruskoðunar sér ekki úr greipum ganga. Hún er hér stödd ásamt eiginmanni sínum og ungri dóttur og segir fjölskylduna hafa hrifist mjög af landinu.

"Við höfum farið á hestbak og í Bláa lónið, séð fossa og farið ferð á snjóbílum," segir hún og upplýsir í leiðinni um mikinn áhuga sinn á kirkjum sem hún hefur séð á ferðalagi sínu. Til gamans má geta að hún segist ef til vill hafa verið á góðri leið með að gera leiðsögumann og bílstjóra fjölskyldunnar gráhærðan af því að biðja hann um stöðva bílinn í hvert sinn sást til kirkjubyggingar einhvers staðar.