STJÓRN Ástralíu hefur verið sökuð um að hafa njósnað um Ástrala með því að láta hlera símasamtöl þeirra við áhöfn norska flutningaskipsins Tampa sem bjargaði 438 flóttamönnum úr sökkvandi ferju í ágúst og var meinað að flytja þá til Ástralíu.

STJÓRN Ástralíu hefur verið sökuð um að hafa njósnað um Ástrala með því að láta hlera símasamtöl þeirra við áhöfn norska flutningaskipsins Tampa sem bjargaði 438 flóttamönnum úr sökkvandi ferju í ágúst og var meinað að flytja þá til Ástralíu.

Ástralska dagblaðið The Daily Telegraph sagði að yfirvöld hefðu hlerað samtöl starfsmanna Alþjóðaflutningamannasambandsins, ITF, og Siglingasamtaka Ástralíu við áhöfn Tampa. Stjórnin hefði síðan fengið afrit af samtölunum og notað þau til að móta pólitísk viðbrögð sín við deilunni um flóttafólkið. Sú stefna hennar að neita að taka við flóttafólki, sem reynir að komast til Ástralíu með bátum, mæltist vel fyrir meðal kjósenda og er talin hafa stuðlað að sigri stjórnarinnar í þingkosningunum í nóvember.

"Óástralskt" framferði

Verkamannaflokkurinn, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, sakaði stjórnina um "svívirðilegt og óástralskt" framferði og krafðist rannsóknar á hlerunarmálinu.

Stjórn Frjálslynda flokksins og Þjóðernisflokksins varði hleranirnar og sagði að þær hefðu verið "nauðsynlegar til að vernda þjóðarhagsmuni Ástrala". Hún sagði að nokkrir flóttamannanna hefðu haft í hótunum við skipstjóra Tampa og benti á að ástralskir hermenn voru um borð í skipinu.

Sydney. AFP.