Eitt helsta veikleikamerki íslensks efnahagslífs í góðæri umliðinna ára hefur verið hinn mikli halli í viðskiptum við útlönd.

Eitt helsta veikleikamerki íslensks efnahagslífs í góðæri umliðinna ára hefur verið hinn mikli halli í viðskiptum við útlönd. Svo árum skiptir hafa Íslendingar flutt sýnu meira inn heldur en út og hefur munurinn hlaupið á tugum milljarða króna og nálgast hundraðið. Þessi mikli halli hefur fylgt þenslu og góðæri og komið fram í innflutningi á hvers kyns vörum, allt frá þungavinnuvélum og efni til framkvæmda til aðkeypts vinnuafls, innflutnings á bílum, erlendra lána og ferðalaga. Nú virðist hins vegar á örskömmum tíma hafa orðið umtalsverð breyting á þessu. Neysla hefur dregist saman eins og sést á tölum um bílasölu, en það sama á við á flestum sviðum þjóðlífsins. Um leið hefur sjávarútvegi vaxið fiskur um hrygg. Sig krónunnar hefur styrkt rekstrarstöðu hans og á hann einnig þátt í þessum viðsnúningi. Reyndist viðskiptahallinn á liðnu ári vera 41% lægri, en spáð hafði verið.

Davíð Oddsson forsætisráðherra fjallaði um þessi mál á viðskiptaþingi Verslunarráðs Íslands á þriðjudag. Hann benti á að Seðlabanki Íslands spáði 3% verðbólgu á þessu ári í stað 9,1% verðbólgu ársins 2001 og tók sérstaklega til þess að spáð væri enn minni viðskiptahalla á þessu ári.

"Viðskiptahallinn hefur minnkað hraðar en flestir gerðu ráð fyrir," sagði Davíð Oddsson á viðskiptaþingi. "Þjóðhagsstofnun spáði því til að mynda í júní s.l. að hallinn árið 2001 yrði 73 milljarðar en raunin varð allt önnur. Hallinn varð 43 milljarðar samkvæmt nýjustu tölum Seðlabankans og gangi spár fjármálaráðuneytisins eftir verður hann á bilinu 25 til 30 milljarðar á þessu ári."

Bandaríski hagfræðingurinn Joseph Stiglitz, sem um skeið veitti Bill Clinton Bandaríkjaforseta ráðgjöf, gegndi starfi aðalhagfræðings Alþjóðabankans í Washington í nokkur ár og hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði á liðnu ári, gerði í fyrra úttekt á stöðu íslensks hagkerfis fyrir Seðlabankann og komst þar að þeirri niðurstöðu að í glímunni við yfirstandandi efnahagsvanda ættu íslensk stjórnvöld mun fremur að beina sjónum að viðskiptahallanum en verðbólgu.

Í samantekt Seðlabankans á skýrslu Stiglitz sagði: "Íslenska hagkerfið glímir um þessar mundir við mörg þeirra vandamála sem hrjá lítil og opin hagkerfi sem nýlega hafa afnumið höft á fjármagnshreyfingar. Ísland hefur fylgt stefnu í peninga- og fjármálum sem mætti halda að væri skynsamleg. Samt sem áður hefur viðskiptahalli landsins aukist í 7% af VLF 1998/1999 og fór yfir 10% á árinu 2000. Það virðist vera eindregin skoðun flestra að þessi halli sé ekki sjálfbær. Lykilatriðið er hins vegar ekki hvort viðskiptahallinn er sjálfbær, heldur með hvaða hætti hann leitar jafnvægis ... Athygli íslenskra stjórnvalda ætti um þessar mundir að beinast í mun meira mæli að viðskiptahallanum en verðbólgu. Það fer eftir aðstæðum hvort viðskiptahalli er vandamál eða ekki. Ef viðskiptahallinn er notaður til þess að fjármagna fjárfestingu einkaaðila mun arðsemi fjárfestinganna væntanlega nægja til þess að greiða aukinn vaxtakostnað þjóðarbúsins."

Niðurstaða Stiglitz var hins vegar á þá leið að hallinn væri vandamál hér á landi: "Tveir þriðju hlutar af viðskiptahalla áranna 1997-2000 skýrast af minnkandi sparnaði einkaaðila og einn þriðji af aukinni fjárfestingu. Gríðarleg aukning útlána á þessum árum bendir til þess að aukið frelsi í fjármagnsflutningum hafi að verulegu leyti valdið viðskiptahalla undanfarinna ára."

Nú er viðskiptahallinn farinn að minnka jafnt og þétt. Það er fagnaðarefni fyrir íslenskt efnahagslíf og hefur vonandi engar óþægilegar afleiðingar fyrir aðra þætti í jöfnu stöðugleikans.