NÝIR eigendur eins elsta fjölbýlishúss á Akranesi við Höfðabraut 14-16 eru þegar byrjaðir á framkvæmdum við endurbætur á húsinu.

NÝIR eigendur eins elsta fjölbýlishúss á Akranesi við Höfðabraut 14-16 eru þegar byrjaðir á framkvæmdum við endurbætur á húsinu. Fimmtán af alls sextán íbúðum þess voru áður í eigu Akraneskaupstaðar en bæjaryfirvöld tóku þá ákvörðun að selja allar íbúðirnar enda var ljóst að ekki væri komist hjá því að fara út í kostnaðarsamar endurbætur á öllu húsinu.

Að sögn Gunnars Árnasonar talsmanns Verkvíkur ehf. sem annast endurbæturnar er ætlun nýrra eigenda að gera húsið upp nánast frá grunni enda hafi húsið verið afar illa á sig komið og talið nánast ónýtt.

Gunnar sagði að byrjað yrði á því að klæða húsið að utan og skipta um glugga en allar íbúðir þess yrðu síðan gerðar upp en það yrði gert í áföngum.

"Húsið býður uppá mikla möguleika enda er útsýnið yfir Faxaflóann og til Reykjavíkur glæsilegt og staðsetningin er eins og best verður á kosið. Íbúðirnar verða ekki seldar á almennum markaði en verða þess í stað leigðar út í framtíðinni. Leiguverðið mun sjálfsagt hækka, en verður samt sem áður í takt við það sem gerist á almennum markaði," sagði Gunnar en nýir eigendur fjölbýlishússins ætla sér að ljúka framkvæmdum utanhúss í sumarlok en lengri tími mun líða þar til verkinu verður lokið að fullu og er áætlað því verði lokið haustið 2003.