Bjarni Daníelsson óperustjóri Íslensku óperunnar.
Bjarni Daníelsson óperustjóri Íslensku óperunnar.
BJARNI Daníelsson óperustjóri telur það ekki hagkvæma lausn á húsnæðismálum Íslensku óperunnar að veita henni aðstöðu og aðgang að Stóra sviði Borgarleikhússins.

BJARNI Daníelsson óperustjóri telur það ekki hagkvæma lausn á húsnæðismálum Íslensku óperunnar að veita henni aðstöðu og aðgang að Stóra sviði Borgarleikhússins. Þetta sagði hann er Morgunblaðið innti hann álits á ummælum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra í blaðinu í gær þess efnis að vel kæmi til greina að sínu áliti að Óperan fengi aðstöðu í Borgarleikhúsinu. Þennan möguleika nefndi borgarstjóri er hún var spurð um möguleika á aukinni hagkvæmni í rekstri atvinnuleiksviða í eigu borgarinnar.

"Þessi spurning hefur komið upp áður, og lét ég í því ljósi gera frumkönnun sl. haust á aðstöðunni í Borgarleikhúsinu til þess að athuga hvað væri hæft í þessum möguleika. Niðurstaðan varð sú að gera þyrfti umfangsmiklar breytingar á húsinu ef það ætti að henta til óperuflutnings," segir Bjarni. "Þessi salur tekur núna í kringum 525 manns, og er hætt við að það yrði eitthvað minna þegar búið væri að gera nauðsynlegar breytingar. Það sem Óperan hefur hins vegar sóst eftir hvað framtíðina varðar er að fá sal sem tekur á bilinu 700 til 800 manns. Þannig væri hægt að sýna venjulegar óperur á þeim grundvelli að aðgangseyrir borgaði fyrir kvöldið. Með þessari stærð, sem er mjög svipuð og í Gamla bíói, myndum við borga háar upphæðir með hverri einustu sýningu. Rekstrarhagkvæmnin myndi því síður en svo aukast við það að fara í jafnstóran sal með stærra og dýrara sviði."

Stjórn Íslensku óperunnar hefur undanfarin misseri vakið athygli á þeim skorðum er núverandi húsnæði hennar í Gamla bíói setji Óperunni, eigi hún að byggja upp samfellda og fjölbreytta starfsemi í nánustu framtíð. Hefur Óperan rætt við ráðamenn ríkis og borgar um hugsanlega aðild að fyrirhuguðu tónlistarhúsi í miðbæ Reykjavíkur og segist Bjarni hafa fengið afdráttarlausa neitun beggja aðila. Hann segir það hins vegar mjög mikilvægt að einhver framtíðarstefna varðandi húsnæði Óperunnar skýrist. Segist Bjarni því ekki vilja fullyrða neitt um Borgarleikhússhugmyndina fyrr en hún skýrðist nánar. "Verandi á götunni erum við svo sem tilbúin að skoða alla hugsanlega möguleika. Óperan vill auðvitað nauðug fara úr miðbænum. Við teljum að það sé réttur staður fyrir Óperuna og starfsemi hennar styrki miðbæinn. Um leið er þetta spurning um einfalt reikningsdæmi. Ef menn telja það skynsamlegra að borga einhverjar milljónir með hverri einustu sýningu Íslensku óperunnar næstu ár eða áratugi, frekar en að leggja í einhvern byggingarkostnað á hagkvæmara húsi, gæti svo sem verið að hægt væri að finna einhvern viðunandi flöt. En það verður að skoða þetta allt saman mun betur áður en ákvörðun er tekin í málinu."