ÆÐSTI maður kaþólsku kirkjunnar í Rússlandi, Tadeusz Kondrusiewicz, var gerður erkibiskup á mánudaginn og brást Rétttrúnaðarkirkjan í landinu illa við þeirri ákvörðun.

ÆÐSTI maður kaþólsku kirkjunnar í Rússlandi, Tadeusz Kondrusiewicz, var gerður erkibiskup á mánudaginn og brást Rétttrúnaðarkirkjan í landinu illa við þeirri ákvörðun. Fullyrti Alexei II patríarki að um væri að ræða tilraun Páfagarðs til að færa út áhrifasvæði sitt og ögra Rétttrúnaðarkirkjunni en þorri Rússa er í henni. Kondrusiewicz, sem nú er orðinn yfirmaður fjögurra biskupsdæma, vísaði því á bug að um ásælni væri að ræða, heldur væri kaþólska kirkjan að færa skipan mála í eðlilegt horf.

Rétttrúnaðarmenn viðurkenna ekki páfa sem æðsta fulltrúa kristinna manna á jörðinni. Kirkja kristinna manna klofnaði um miðja elleftu öld og voru lengi væringar á milli deilda Rétttrúnaðarkirkjunnar annars vegar og Rómarkirkjunnar hins vegar. Á 16. öld klufu mótmælendur sig síðan út úr Rómarkirkjunni.

Biskupsdæmin fjögur hafa verið lengi við lýði en án þess að um formlega og viðurkennda tilhögun hafi verið að ræða. Alexei var harðorður og sagði að aldrei fyrr hefði komið til mála af þessu tagi í sögu landsins en reynt hefur verið um árabil að bæta samskipti Rétttrúnaðarkirkjunnar og Páfagarðs. Leiðtogar hinnar fyrrnefndu saka kaþólska menn um að reyna að snúa fólki og fá það til að ganga í lið með páfa.

"Við höfum margoft bent á að áróður þeirra í Rússlandi sé aðalhindrunin á vegi bættra samskipta milli kirknanna okkar," sagði Alexei. Kirkja hans sendi Páfagarði í fyrradag yfirlýsingu þar sem sagði að hún vildi ekki að sérstakur sendiboði Jóhannesar Páls II páfa, Kasper kardínáli, kæmi í heimsókn til Moskvu eins og fyrirhugað hafði verið að hann gerði í næstu viku.

Talsmenn utanríkisráðuneytisins í Moskvu hafa fram til þessa hliðrað sér við því að taka afstöðu í deilunum en þeir lýstu í gær vonbrigðum sínum og sögust hafa viljað að ákvörðun um skipun í embætti erkibiskups yrði seinkað. Ekki væri verið að andmæla því að starf kaþólsku kirkjunnar meðal Rússa væri skipulagt í samræmi við hefðir hennar, sagði í yfirlýsingu ráðuneytisins. En "við hörmum að svo mikilvæg ákvörðun skyldi vera tekin án þess að tekið væri tillit til rússneskra sjónarmiða".

Fulltrúar kaþólikka í Rússlandi voru á hinn bóginn mjög ánægðir með breytinguna. Sögðu biskupar hennar í yfirlýsingu að með ákvörðun sinni hefði páfi "endurreist sögulegt réttlæti í þágu kaþólskra manna í landinu". Talið er að allt að 600.000 kaþólikkar búi í Rússlandi en íbúarnir eru alls um 145 milljónir.

Moskvu, Páfagarði. AP, AFP.