Geysir í Haukadal gaus í gær. Þessi mynd var tekin í júní árið 2000 en þá hófst kröftugt gos eftir að  fjörutíu kílóum af sápu hafði verið hent í hann.
Geysir í Haukadal gaus í gær. Þessi mynd var tekin í júní árið 2000 en þá hófst kröftugt gos eftir að fjörutíu kílóum af sápu hafði verið hent í hann.
GEYSIR í Haukadal gaus af sjálfsdáðum á þriðja tímanum í gær og náði vatnssúlan um fimmtíu til sextíu metra hæð að sögn Más Sigurðssonar, eiganda Hótels Geysis. Hann segir ennfremur að gosið hafi staðið yfir í tuttugu mínútur til hálftíma.

GEYSIR í Haukadal gaus af sjálfsdáðum á þriðja tímanum í gær og náði vatnssúlan um fimmtíu til sextíu metra hæð að sögn Más Sigurðssonar, eiganda Hótels Geysis. Hann segir ennfremur að gosið hafi staðið yfir í tuttugu mínútur til hálftíma.

Um sjötíu manns, aðallega erlendir ferðamenn, urðu vitni að gosinu.

Már segir að virknin hafi aukist í hvernum undanfarnar vikur; hann sé heitari og meira vatn komi úr honum. "Geysir hefur verið að skvetta úr sér öðru hvoru undanfarnar vikur og hefur vatnssúlan þá náð um 25 til 30 metra hæð," segir Már en bætir því við að gosið í gær hafi verið "alvöru gos", eins og hann orðar það, því vatnssúlan hafi náð fimmtíu til sextíu metrum. Gosstrókurinn hafi þó verið aðeins hærri. "Geysir er orðinn eins og unglingur aftur," segir Már.

Már segir að Geysir hafi verið nokkuð virkur eftir jarðskjálftana á Suðurlandi sumarið 2000 en segir að virknin hafi aukist enn frekar síðustu vikurnar. Hann gjósi nú að jafnaði, í um 25 til 30 metra hæð, þrisvar á dag; fyrst um kl. 8 á morgnana, síðan kl. 12 á hádegi og að lokum um kl. 18.