MEÐALTEKJUR framteljenda á aldrinum 26-65 ára voru rúmlega 208 þúsund krónur á mánuði árið 2000, samkvæmt skattframtali 2001. Karlar á þessum aldri höfðu að meðaltali rúmlega 264 þúsund króna mánaðartekjur, en konur tæplega 153 þúsund.

MEÐALTEKJUR framteljenda á aldrinum 26-65 ára voru rúmlega 208 þúsund krónur á mánuði árið 2000, samkvæmt skattframtali 2001. Karlar á þessum aldri höfðu að meðaltali rúmlega 264 þúsund króna mánaðartekjur, en konur tæplega 153 þúsund.

Þetta kom fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Stefaníu Óskarsdóttur á alþingi. Fyrirspurn Stefaníu var um skiptingu þeirra sem töldu fram fyrir árið 2000 á tekjubil (með 50 þúsund kr. bili) frá 0 og upp í 1 milljón kr. og yfir 1 milljón kr. þegar með eru taldar atvinnutekjur, fjármagnstekjur og bætur almannatrygginga og hvernig skipting kynjanna væri í hverju tekjubili.

Breytilegt vinnuframlag

Fjármálaráðherra vísar til upplýsinga frá Þjóðhagsstofnun. Þar kemur fram, að meðaltekjur allra framteljenda voru tæpar 173 þúsund krónur á mánuði árið 2000, þar af tekjur karla tæp 217 þúsund og kvenna rúm 130 þúsund. "Mikilvægt er að taka fram að í þessum tölum er ekki tekið tillit til breytilegs vinnuframlags, t.d. vegna hlutastarfa, sem getur að hluta skýrt mismunandi tekjur kynja og einstakra tekjuhópa," segir í svarinu.

Til að endurspegla þá sem eru á vinnumarkaði voru sérstaklega teknar út tölur yfir tekjur fólks á aldrinum 26-65 ára og þar voru karlarnir með rúm 264 þúsund og konur tæp 153 þúsund.