Einar Hákonarson: Tré, olía á léreft.
Einar Hákonarson: Tré, olía á léreft.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Opið fimmtudaga, föstudaga og laugardaga frá 12-18. Til 1. mars. Aðgangur ókeypis.

ÞAÐ telst til nokkurra tíðinda þegar listamenn opna sjálfir listhús til að koma verkum sínum á framfæri, enda gefur slíkt til kynna að ekki sé allt með felldu. Telst fullt starf og drjúgt meira, að sinni list sinni óskiptur sem þó er hægara sagt en gert í landi þar sem litið er á listiðkun sem afþreyingu og munað frekar en fullgildan starfsvettvang með þjóðhagslegt gildi. Sennilega er frumstæður og rangsnúinn hugsunarháttur útnárabúans óvíða greinilegri en í þessum efnum, og hér erum við langt langt á eftir frændum vorum á Norðurlöndum. Að því hef ég margoft fært rök í vettvangsskrifum mínum en viðbrögðin látið á sér standa og hér eru listamennirnir sjálfir illu heilli engan veginn stikkfríir, þótt miklir hagsmunir hvers og eins séu í húfi og farsælast að berjast óhikað fyrir þeim á opinberum vettvangi.

Þrátt fyrir allar framfarirnar sem helst eru greinilegar á ytra byrði, eru málarar þótt lygilegt sé verr settir um sýningahald en fyrir hálfri öld er Listamannaskálinn við Kirkjustræti var og hét. Þá var mögulegt að sýna stórhug og taka hann á leigu og sú útgerð öllu fyrirhafnar- og kostnaðarminni en nú gerist. Hér undanskil ég náttúrulega holskelfu vanbúinna smásýninga sem ríða yfir höfuðborgarsvæðið ár hvert og virðast helst vera settar upp til að komast í sviðsljósið. Flestar ekki samstiga lágmarksreglum um upplýsingaskyldu við hinn almenna sýningargest eins og hvarvetna er hefð og skylda í nágrannalöndunum.

Að vísu hafa verið reistar menningarmiðstöðvar og söfn, en kostnaður við að halda sýningar í þeim margfaldur á við það sem gerðist um Listamannaskálann, einnig margfaldur sé tekið mið af Kjarvalsstöðum fyrir rúmum tveim áratugum og vísa ég hér til eigin sýningar í öllu húsinu 1980, sem ég stóð einn að og tók mikla áhættu, en sem skilaði sér framar öllum væntingum bæði mínum og annarra. Þróunin kemur sjálfri yfirnáttúrulegri fjölgun listamanna lítið við, þyngra á metum að nú eru sýningarsalirnir margfalt dýrari og allir kostnaðarliðir til hliðar hafa rokið upp úr öllu valdi. Þá er sá kjarni sem yfirleitt mætti á alla meiri háttar viðburði og samanstóð af 6-900 borgandi gestum, sem jafnaði allan útlagðan kostnað, nær horfinn. Hefur hér orðið algjör öfugþróun sé litið til útlandsins og verður vikið að því í vettvangsskrifi fljótlega. Margt fleira á brennidepli sem þarfnast umræðu, en hér alvarlegast að nú er starfsstétt sem ekki var til áður einráð um hverjir fái að sýna á söfnum og listamiðstöðvum og misnotar bersýnilega þetta vald sitt gróflega til að hygla einum en bregða fæti fyrir aðra. Svo langt gengur að umsóknum landsþekktra málara og brautryðjenda um sýningarými er hafnað á sama tíma og kostaðar eru sýningar annarra sem ganga fyrir tómum húsum. Heitir iðulega að gera samtímalist sýnilegri, en um leið er hugtakinu snúið á rönguna og einangrað við afar þröngt skoðanamynstur.

Í ljósi ofanskráðs er skiljanlegt að málarar leiti leiða til að koma verkum sínum á framfæri og að landsþekktir málarar sætti sig ekki við að þeim sé einfaldlega rutt út af borðinu, látið sem þeir hafi aldrei verið til. Þannig séð er framtak þeirra Einars Hákonarsonar og Hauks Dórs eðlileg þróun til mótvægis ríkjandi ástandi um þessar mundir.

- Það var eðlilega með forvitni og eftirvæntingu að ég nálgaðist sýningu þeirra félaga, þótt mér kæmi spánskt fyrir sjónir að staðsetning hennar er í miðjum almennum verslunarkjarna á staðnum. Má þó að ósekju upplýsa, að ekki er óalgengt að rekast á virt listhús í verslunarkjörnum í miðborg Tókýó, en þeir eru af íburðarmeiri taginu, þar að auk eru fín einkasöfn á efstu hæð einstakra, þar á meðal safnið í skýjakljúfnum sem geymir Sólliljur van Goghs. Staðsetningin þannig ekki meginveigurinn heldur vægi starfseminnar innan dyra, þótt óneitanlega sé evrópsk hefð okkur tamari.

Hús málaranna er staðsett í austurhorni neðri hæðar verslunarkjarnans, í nágrenni útsölu ÁTVR og beint á móti kránni Rauða ljóninu, blasir við er gengið er frá efri hæð niður hringstiga. Um að ræða mjög björt og opin húsakynni, öll forhliðin úr gleri, en sá er ljóðurinn að dagsljós nær aldrei að skína á myndverkin inni og að hér þyrfti helst að koma til sérstök og mjög dýr lýsing. En málverkin njóta sín ágætlega á veggjunum, þótt það teljist full stórt upp í sig tekið að um sé að ræða fallegasta sýningarsal í bænum.

Ekki þarf að kynna þá félaga, sem báðir hafa staðið í öndvegi ýmissa hræringa á liðnum áratugum og eiga það sameiginlegt að vera atorkumenn og fylgnir sér í öllu því sem þeir taka sér á annað borð fyrir hendur.

Þá er handbragð þeirra eða pensilskrift, eins og það er stundum nefnt, auðþekkjanlegt. Og þótt þeir séu nánast jafnaldrar og hafi báðir látið hrífast með af Bacon-faraldrinum á námsárum sínum, er útfærsla verka þeirra, form og litskyn af ólíkum toga svo sem fram kemur á þessari fyrstu sýningu. Einar Hákonarson er mýkri og ljóðrænni, sem helst kemur fram í myndunum Tré, Fugl og maður og Um morgun, yfir þeim öllum samræmd heild og litrænn stígandi sem hittir í mark. Haukur Dór er meira fyrir skipulagðar heildir, sem hann brýtur stundum upp með óformlegum vinnubrögðum líkt og Bacon forðum. Skapgerðin bersýnilega úfnari og listamaðurinn leitar víðar fanga eins og kemur fram í myndunum Tákn I, Sól í Granadaborg og Til dýra.

Því miður virðist þessum stórhuga mönnum lítt hafa sést fyrir í framkvæmdagleði sinni, þá sjálfum nær óaðfinnanlegum verkþáttunum sleppir, þannig fær sýningargesturinn ekkert á milli handanna og myndir ónúmeraðar. Að vísu eru handskrifaðir miðar við hlið þeirra, en á stundum er skriftin ógreinileg og gæti misskilist. Loks er stefnuskrá listhússins nokkuð á reiki, ekki fulljóst hvað tekur við eftir þessa sýningu né hvenær henni lýkur. Og þótt nafnið vísi til þess að þetta eigi að vera athvarf málara pentskúfsins og sköfunnar, kemur fram að hér sé öðru fremur á ferð sjálfsbjargarviðleitni þeirra félaga sem er að sjálfsögðu besta mál, en þá getur nafnið orkað tvímælis.

Ein vika til að setjast niður og hnýta saman alla lausa enda hefði getað breytt miklu, hér engin þröng tímamörk né utanaðkomandi sem þrýstu á, félagarnir sínir eigin herrar. En hvað sem öllum fingurbrjótum viðvíkur er rétt og skylt að óska þeim góðs gengis og listhúsinu velfarnaðar. Jafn rétt að óska bæjarfélaginu til hamingju með sitt fyrsta listhús.

Bragi Ásgeirsson