EINHVERN tímann var þessi frasi notaður í auglýsingu. Það leynist mikill sannleikur í þessari yfirskrift, en samt er raunin ekki sú að það hafi allir þak yfir höfuðið. Á Íslandi í dag er stór hópur sem ekki á sér griðastað sem þeir geta kallað heimili.

EINHVERN tímann var þessi frasi notaður í auglýsingu. Það leynist mikill sannleikur í þessari yfirskrift, en samt er raunin ekki sú að það hafi allir þak yfir höfuðið. Á Íslandi í dag er stór hópur sem ekki á sér griðastað sem þeir geta kallað heimili. Það eru ekki bara svokallaðir "útigangsmenn" sem eru húsnæðislausir. Í þessum hópi eru láglaunaðir einstaklingar/fjölskyldur, einstæðir foreldrar, öryrkjar, aldraðir og fólk sem hefur misst eigur sínar vegna uppáskrifta á lánum fyrir aðra.

Villandi tölur um húsnæðislausa eða þá sem skráðir eru "óstaðsettir í hús" hjá Hagstofu gefa engan veginn raunverulega mynd af húsnæðisleysi á Íslandi í dag. Samkvæmt lögum eiga einstaklingar að vera með skráð lögheimili einhverstaðar hvort sem þeir búa þar eða ekki. Sem dæmi vitna ég í unga einstæða móður sem er með lögheimili hjá fyrrverandi tengdamóður sinni en hún bjó þar síðast fyrir tveimur árum. Hún hefur búið á 11 stöðum síðan þá, inni á vinum og vandamönnum til skiptis. Stúlkan býr í dag á gistiheimili með þriggja ára gamla dóttur sína. Ef hún sem löghlýðin en heimilislaus borgari færi eftir þessum skráningarreglum þá þyrfti hún að flytja lögheimili sitt ansi oft. Þessi stúlka er langt frá því að vera eina dæmið um húsnæðislausa sem lifa dag frá degi í von um að geta haft fastan samastað einhvertíma í framtíðinni. Húsaleiga er á uppsprengdu verði og ekki óalgengt að heyra að fólk greiði allt að 80.000 fyrir þriggja herbergja íbúð. Þó húsaleigubætur séu ekki lengur skattlagðar þá er sú upphæð dropi í hafið hjá láglaunafólki sem þarf að greiða slíka leigu. En á meðan vandamálið er tölulega villandi er slæmt húsnæðisástand ósýnilegt fyrir almenningi og ráðamönnum þjóðarinnar. Blákaldur raunveruleikinn sýnir sig hjá þeim sem hýsast á stofugólfinu hjá ættingjum, búa á gistiheimilum eða leigja sér þak yfir höfuðið fyrir 80% af launum sínum. Með öll þessi kostningaloforð sem eru í gangi í dag þá er eins og keisarinn hans H.C. Andersen, í hlutverki velferðarsamfélagsins, klæðist ekki eingöngu ósýnilegum fötum, heldur virðist hann líka hafa stungið höfðinu í sandinn að hætti strútsins.

DAGBJÖRT L.

KJARTANSDÓTTIR,

félagsráðgjafi.

Frá Dagbjörtu L. Kjartansdóttur: