Darius Vassell  fagnað eftir að hann jafnaði fyrir England gegn Hollandi í Amsterdam. Til vinstri er Gary Neville og til hægri fyrirliðinn, David Beckham.
Darius Vassell fagnað eftir að hann jafnaði fyrir England gegn Hollandi í Amsterdam. Til vinstri er Gary Neville og til hægri fyrirliðinn, David Beckham.
DARIUS Vassell, sóknarmaðurinn efnilegi frá Aston Villa, sló heldur betur í gegn í fyrsta landsleik sínum fyrir Englands hönd. Englendingar gerðu jafntefli, 1:1, við Hollendinga í vináttulandsleik í knattspyrnu í gærkvöld og skoraði Vassell jöfnunarmark Englendinga á stórglæsilegan hátt.

Patrick Kluivert kom Hollendingum yfir, nokkuð gegn gangi leiksins, á 25. mínútu þegar hann skaut í Sol Campbell, varnarmann Englands, og af honum hrökk boltinn í netið. Það var eina umtalsverða marktækifæri Hollendinga í leiknum.

Vassell, sem er 21 árs og hefur aðeins leikið 36 leiki í ensku úrvalsdeildinni, tók til sinna ráða á 61. mínútu. Hann skoraði þá með glæsilegri hjólhestaspyrnu eftir fyrirgjöf frá David Beckham og varð með því aðeins fjórði leikmaður Englands á síðustu tíu árum til að skora mark í sínum fyrsta landsleik.

"Ég tók áhættuna þegar ég sá boltann koma í þessari hæð og hitti hann mjög vel. Þetta hefur verið stór vika í mínu lífi, vonandi held ég áfram mínu striki með Aston Villa þannig að ég verði valinn í landsliðið á ný," sagði Vassell.

Edwin Van der Sar, markvörður Fulham, hélt Hollendingum á floti í leiknum og varði hvað eftir annað frábærlega, meðal annars frá Vassell, Beckham og Kevin Phillips.

"Það var gaman að sjá ungu leikmennina koma inn í liðið og spila svona vel gegn sterkum mótherjum," sagði Sven-Göran Eriksson, þjálfari enska landsliðsins. Eini ósigur hans frá því hann tók við liðinu var einmitt í vináttuleik gegn Hollendingum á síðasta ári.

Lið Englands skipuðu eftirtaldir leikmenn: Nigel Martyn (David James 46.), Gary Neville (Phil Neville 77.), Sol Campbell (Gareth Southgate 46.), Rio Ferdinand, Wayne Bridge (Chris Powell 46.), David Beckham, Steven Gerrard (Nicky Butt 77.), Paul Scholes (Joe Cole 77.), Emile Heskey, Darius Vassell (Frank Lampard 77.), Michael Ricketts (Kevin Phillips 46.).

Óvænt jafntefli í Wales

Walesbúar komu nokkuð á óvart þegar þeir gerðu jafntefli, 1:1, við hið sterka lið Argentínu í Cardiff. Craig Bellamy, sóknarmaður Newcastle, kom þeim yfir með skalla eftir hornspyrnu frá Ryan Giggs. Julio Cruz náði að jafna fyrir Argentínumenn eftir góða stungusendingu frá Juan Sebastian Veron. Argentínumenn kvörtuðu mjög undan aðstæðum í Wales. Þar var grenjandi rigning sem gerði það að verkum að þeir æfðu fyrir leikinn í gamalli hlöðu. Leikurinn sjálfur fór fram undir þaki á hinum glæsilega Millennium-leikvangi.

Ítalir máttu þakka fyrir að sigra fríska Bandaríkjamenn á Sikiley. Gestirnir réðu ferðinni lengst af en Alessandro Del Piero skoraði eina mark leiksins, 1:0, um miðjan síðari hálfleik.

Vieira skoraði eftir 50 sekúndur

Patrick Vieira skoraði eftir aðeins 50 sekúndna leik þegar frönsku heimsmeistararnir sigruðu Rúmena, 2:1, á Stade de France-leikvanginum í útjaðri Parísarborgar. Vieira skoraði markið með skalla eftir aukaspyrnu frá Emmanuel Petit, sem skoraði síðara mark Frakka um miðjan fyrri hálfleik með þrumufleyg af 30 metra færi. Ionel Ganea, leikmaður Stuttgart, svaraði fyrir Rúmena undir lok leiksins.

Spánverjar hafa ekki sigrað nágranna sína frá Portúgal í 44 ár og engin breyting varð á því í Barcelona. Jorge Costa kom Portúgal yfir en Fernando Morientes jafnaði fyrir Spán og lokatölur urðu 1:1.