TÓMSTUNDA- og íþróttaráð Reykjanesbæjar leggur til að parket verði lagt ofan á steingólfið í aðalsal íþróttahúss Keflavíkur í stað þess að brjóta gólfið upp, grafa það upp og steypa nýja plötu eins og áður var talið nauðsynlegt.

TÓMSTUNDA- og íþróttaráð Reykjanesbæjar leggur til að parket verði lagt ofan á steingólfið í aðalsal íþróttahúss Keflavíkur í stað þess að brjóta gólfið upp, grafa það upp og steypa nýja plötu eins og áður var talið nauðsynlegt. Fjármunirnir sem sparast verði notaðir til að byggja áhaldageymslu sunnan við húsið.

Leggja á parketgólf á aðalsal íþróttahússins við Sunnubraut á árinu, samkvæmt fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar. Á gólfinu er nú dúkur á steinsteyptu gólfi og er hann orðinn lélegur. Íþróttafólk hefur kvartað undan lélegri fjöðrun í gólfinu og var ákveðið að setja parket á gólfið, gólf eins og reynst hefur vel í íþróttamiðstöðinni í Njarðvík.

Vildu stækka salinn

Í fyrstu var talið nauðsynlegt að brjóta upp steingólfið og fjarlægja, grafa upp úr grunninum og steypa nýja plötu neðar til þess að hægt yrði að leggja grindur sem parketgólfið er lagt á. Ef parketið yrði lagt á núverandi gólf myndi það hækka svo mikið að hurðargöt inn í salinn yrðu ólögleg.

Við undirbúning málsins komu upp þær hugmyndir, meðal annars frá körfuknattleiksdeild Keflavíkur, um að láta gólfið halda sér en brjóta niður áhorfendastæðin að gangi fyrir framan búningsherbergi. Síðan yrðu sett færanleg og útdraganleg áhorfendasvæði beggja vegna salarins og áhaldageymsla byggð við húsið. Við þetta myndi gólf salarins stækka og húsið gjörbreytast til batnaðar, að flestra mati.

Samkvæmt upplýsingum Stefáns Bjarkasonar, tómstunda- og íþróttafulltrúa, var þessi hugmynd talin framkvæmanleg frá byggingatæknilegu sjónarmiði en mjög dýr auk þess sem nauðsynleg aðstaða myndi tapast, svo sem kennara- og dómaraherbegi. Segir Stefán að þessi lausn myndi kosta um 50 milljónir kr. eða tvöfalt meira en það fé sem varið hefur verið til verksins.

Þá kom upp sú hugmynd að saga burtu nauðsynlega hluta áhorfendastæða til að ná löglegri hæð á þrjú hurðargöt inn í salinn með því að parketið yrði lagt ofan á núverandi gólf. Hugmyndin er að körfuknattleiksvöllurinn verði færður fjær áhorfendapöllunum og settir færanlegir pallar framan við þá föstu. Með því móti yrði hægt að fjölga áhorfendum á leiki. Segir Stefán að þessi lausn, ásamt því að byggja nýja áhaldageymslu við suðurgafl hússins rúmist innan samþykktrar fjárhagsáætlunar. Áhaldageymsla þessi er á upphaflegum teikningum fyrir húsið en var aldrei byggð.

Tómstunda- og íþróttaráð Reykjanesbæjar hefur nú samþykkt þessa síðastnefndu tilhögun og leggur til við umhverfis- og tækisvið bæjarins að hún verði notuð. Fram kom í ráðinu að með því sparaðist mikill tími því ekki þyrfti að steypa upp nýtt gólf. Þá fengist stór áhaldageymsla sem hægt yrði að nota til að geyma færanlega áhorfendabekki og stærri leikifimiáhöld.