Sigríður Ólafsdóttir, Einar Bjarnason og Ellý Guðmundsdóttir segja mikla hugarfarsbyltingu hafa orðið í umhverfis- og sorpmálum undanfarin tíu til fimmtán ár.
Sigríður Ólafsdóttir, Einar Bjarnason og Ellý Guðmundsdóttir segja mikla hugarfarsbyltingu hafa orðið í umhverfis- og sorpmálum undanfarin tíu til fimmtán ár.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
NÝTT sorphirðukerfi, svokallað rúmmálskerfi, verður innleitt í Reykjavík á þessu ári.

NÝTT sorphirðukerfi, svokallað rúmmálskerfi, verður innleitt í Reykjavík á þessu ári. Í því felst að allar ruslatunnur í borginni verða útbúnar með tölvukubbi og strikamerki auk merkingarspjalds sem íbúar nota til að segja til um hvenær þeir vilja láta losa ruslið hjá sér.

Þessa dagana eiga borgarbúar von á kynningarefni inn um póstlúguna hjá sér þar sem hið nýja kerfi er útskýrt. Einar Bjarnason, deildarstjóri hreinsunardeildar Reykjavíkurborgar, segir að með því að innleiða rúmmálskerfið í sorphirðu borgarinnar sé vonast til að endurvinnsla aukist og sorpmagn minnki. Hvatning fólks til þessa sé að sorphirðugjaldið verði í hlutfalli við það hversu oft tunnurnar hjá þeim eru losaðar. "Við verðum með ákveðið fastagjald sem verður hluti af sorphirðugjaldinu í dag. Við fastagjaldið bætist svo losunargjald sem verður í samræmi við fjölda losana. Þannig að þetta á að verða til lækkunar á gjaldinu fyrir einstaklingana," segir hann.

Kerfið virkar sem fyrr segir þannig að íbúar láta vita þegar þeir vilja að tunnurnar verði losaðar hjá sér með því að snúa upp þar til gerðum flipa sem festur verður á tunnurnar. "Við förum vikulega inn í hverfin eins og verið hefur því samkvæmt reglugerð mega ekki líða meira en 14 dagar milli losana," segir Einar. "Reglan verður hins vegar sú að fólk lætur vita þegar það vill sorplosun. Örkubbur og strikamerki eru sett á tunnuna til þess að tengja hana því húsi sem hún tilheyrir. Kubburinn inniheldur allar nauðsynlegar upplýsingar og síðan er lesari á lyftunni á bílnum sem les upplýsingarnar og skrárir inn í tölvu um leið og tunnurnar eru losaðar." Í fjölbýlishúsum þarf fólk þó ekki að huga að sorpinu á sama hátt því þar verða fullar tunnur tæmdar en aðrar látnar vera. Sorphirðugjaldið fer eftir sem áður eftir fjölda þeirra tunna sem eru tæmdar.

"Áminning til íbúanna"

Ákvörðun um að velja rúmmálskerfið fyrir borgina alla var tekin í kjölfar tilraunar með þrjú mismunandi sorphirðukerfi á tveimur svæðum í Breiðholti og einu í Árbæ. Niðurstöður tilraunarinnar bentu til þess að af þessum þremur kerfum hvatti rúmmálskerfið mest til flokkunar úrgangs. Komu fram aukin skil á dagblöðum og drykkjarfernum í söfnunargáma og á sama tíma minnkaði heildarmagn sorps á svæðinu.

"Rúmmálskerfið er alltaf áminning til íbúanna því þeir þurfa að taka þátt strax frá byrjun," segir Einar og útskýrir þetta betur. "Fyrstu vikuna sem kerfið var í gangi á tilraunasvæðinu fór meðhöndlun okkar á sorptunnum úr 97-98 prósent niður í 40 prósent. Íbúarnir gleymdu einfaldlega að setja merkið upp. Næstu viku á eftir rauk þetta upp í 85 prósent eða svo en eftir það fór þetta að jafnast út." Hann segir að reynslan hafi sýnt að kerfið leiði til þess að meðhöndlun á sorptunnum fari í 75-80 prósent sem er um 20 prósentum minna en tíðkast í núverandi kerfi.

Eftir að merkja 40 þúsund tunnur

Einar segir aukna endurvinnslu lykilatriði í því að sorpmagn minnki og það vekur þá spurningu hvort til standi að fjölga söfnunargámum, svokölluðum grenndarstöðvum, í borginni. "Við erum að fara yfir grenndarstöðvakerfið með staðsetningar í huga og verið er að athuga hvort þurfi að færa þær til eða fjölga þeim," segir Einar sem telur þó öruggt að þeim verði fjölgað eitthvað við þá athugun. Sigríður Ólafsdóttir, rekstrarstjóri sorphirðu í Reykjavík, bendir á að á síðustu árum hafi söfnunargámunum verið fjölgað um 60 prósent.

Að sögn Einars mun hreinsunardeildin halda áfram að bjóða Reykvíkingum upp á sérstakar jarðgerðartunnur til leigu en með því að setja lífrænan úrgang í slíka tunnu í stað þess að henda honum í venjulegt rusl má minnka heimilissorp töluvert. Tunnurnar breyta úrganginum svo í jarðvegsbæti, svokallaða moltu sem gott er að nota með venjulegri mold.

Þau Einar og Sigríður segja árið í ár verða notað til að innleiða kerfið og prufukeyra það áður en það verður tekið formlega til notkunar um næstu áramót. Vegna tilraunarinnar er þegar búið að innleiða það í stóran hluta Breiðholtsins og búast þau við að næsta skrefið verði að koma því á koppinn í öðrum hlutum Breiðholts og Árbæjar. Þá verði kerfinu komið á í Grafarvogi og síðan verði haldið áfram vestur eftir borginni.

Einar segir töluvert átak framundan í þessum efnum. "Við getum ekki byrjað að prufukeyra kerfið fyrr en tölvubúnaður verður kominn í bíla og örflögur og strikamerki komin á allar tunnur. Þetta er ærið verkefni því við eigum eftir að setja merki á um það bil 40 þúsund tunnur og tölvubúnað í níu sorphirðubíla af þeim þrettán sem við höfum til umráða." Segir hann kostnað borgarinnar við uppsetningu útbúnaðarins áætlaðan um 20 milljónir króna en eftir eigi að fá tilboð í verkið.

En er ekki til of mikils mælst að ætlast til af borgurunum að þeir taki jafnvirkan þátt í sorphirðunni og kerfið hefur í för með sér? Ellý Guðmundsdóttir, forstöðumaður Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur, telur svo ekki vera. "Það hefur átt sér stað mikil hugafarsbreyting undanfarin 10-15 ár um það að sorphirða er ekki bara sorphirða heldur líka umhverfismál þannig að fólk er orðið miklu meðvitaðra og vill endurvinna. Og með þessu kerfi gefst borgurunum tækifæri til að koma endurvinnslunni í framkvæmd. Framtíðin er að borgarinn taki virkan þátt því að umhverfisstefna almennt eða endurbót á umhverfismálum gengur annars ekki."