Gunnar Kristinsson fæddist í Hnífsdal 14. júlí 1927. Hann lést í Kópavogi 7. janúar síðastliðinn og fór útför hans fram frá Hjallakirkju 11. janúar.

Svo vef ég í angurværðir óðs inn andaðan, í línur táraglaðar. Í englaröðum glaðværðar og góðs minn gestur verður - hvergi annars staðar! Ég kveð þig ugglaus, um það lokast sárin. Á eftir blessun, þakkirnar og tárin. (Stephan G. Steph.)

Sjáðu á himni

hátt yfir fjöllin

rísandi roða.

Ljós og litir

leika um skýin,

birtingu boða.

Maðurinn sínum

sorgum gleymir

og sefast lætur,

er dagsbrún dreifir

döprum skuggum

dimmrar nætur.

Mönnum er fjarlægt

í morgunsins veldi

myrkrið að kveldi.

(Á.G. Finnsson.)

Vinur okkar hjóna til margra ára og fyrrum nágranni, Gunnar Kristinsson, hefur lagt upp í sína hinstu ferð. Alls óvænt þar sem Gunnar var að stunda heilsurækt að morgni dags birtist dauðinn honum og bauð honum að fylgja sér. Við svona skyndilega brottför er öllum ættingjum og vinum brugðið, en ef við hugsum málið aðeins betur, er það þá ekki einmitt svona sem flestir vildu fá að fara. "Mönnum er fjarlægt í morgunsins veldi, myrkrið að kveldi."

Gunnar flutti með fjölskyldu sína í Fögrukinn 10, næsta hús við okkur og féllu þau vel inn í þann góða nágrannahóp sem þar var fyrir.

Samgangur varð fljótlega mikill hjá fjölskyldum okkar og glaðværðin var venjulega í fyrirrúmi og ógleymanlegur var hinn djúpi og hljómmikli hlátur Gunnars á góðum stundum. Gunnar hafði fallegan hlátur sem var mjög í samræmi við söngrödd hans. Þessi hlátur er nú þagnaður en ekki gleymdur.

Húsbændurnir á 10 og 12 áttu það til að spígspora um landareign sína að kvöldi að góðra bænda sið og, að sögn eiginkvenna þeirra sem fannst þetta fyndið, yfirlíta óðalsetrin sín og spjalla um hvað betur mætti gera.

Það er óhætt að segja að þá hafi flest verið skemmtilegt eða snúið upp í grín því þá var myrkrið að kveldi svo fjarlægt. Gunnar og Sigrún höfðu reyndar þá þegar kynnst sorginni mjög náið þegar þau misstu frumburð sinn Kristin er hann var ungbarn. Sagt hefur verið að þær systur sorgin og gleðin séu svo samrýndar að á meðan önnur sitji til borðs með þér þá sofi hin í rúmi þínu.

Þegar Gunnar og fjölskylda hans fluttu vestur vorum við reyndar flutt úr Fögrukinninni, en vináttan hélst óslitin enda voru þau hjónin ólöt við að keyra suður og heimsækja vinina. Það var svona einhvern veginn styttra suður fyrir þau heldur en vestur fyrir okkur.

Þeim leið vel fyrir vestan í heimabyggð hans Hnífsdal, sem börn þeirra hafa nefnt Sæludal og segir það sína sögu um hve vel þau undu þar hag sínum. Þar var fyrir stór hópur ættingja hans og vinir og þau fljót að stækka vinahópinn. Þau byggðu sér þar einbýlishús og stærri varð spildan þar sem hann hefur þurft að yfirlíta að kveldi.

Í framhaldi af illvígum sjúkdómi sem venjulega eirir engu en Gunnar virtist hafa haft betur, voru þau nýbúin að koma sér vel fyrir í fallegu raðhúsi í Blásölum í Kópavogi, en voru þó meira og minna fyrir vestan á sumrin. Það var því ekki gert ráð fyrir því þennan umrædda morgun að hönd væri lögð á öxl hans og ný ferðatilhögun lögð fyrir hann, en enginn veit hvar eða hvenær þeim birtast slík ferðalok, sem um leið er upphaf á nýrri leið. Þetta vitum við ekki, en við vitum að okkur finnst ónotalega hratt sem skörð hafa verið skorin í vinahópinn. Gunnars verður sárt saknað og við gleymum hvorki góðri nærveru hans né glaðværs hláturs.

Við hjónin og börn okkar viljum votta Sigrúnu, börnum og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð. Við treystum því að minn

Svo vef ég í angurværðir óðs

inn andaðan, í línur táraglaðar.

Í englaröðum glaðværðar og góðs

minn gestur verður - hvergi annars staðar!

Ég kveð þig ugglaus, um það lokast sárin.

Á eftir blessun, þakkirnar og tárin.

(Stephan G. Steph.)

Við kveðjum vin okkar með söknuði, en jafnframt með þakklæti fyrir öll góðu árin sem við fengum að eiga vináttu hans. Við biðjum honum blessunar og fararheilla á æðri stöðum. Guð blessi minningu hans.

Þórdís og Benedikt.

Þórdís og Benedikt.