Alie Rita Ísólfsson fæddist í Kaupmannahöfn 30. september 1917. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 8. janúar síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Áskirkju 18. janúar.

Það var fyrir sjö árum eða nánar 14. sept. 1994 að ég tók að æfa söng með kór félagsstarfs aldraðra í Reykjavík á Vesturgötu 7, sem hafði áður verið staðsettur í Gerðubergi. Fljótlega urðu kynni við kórfélaga meiri og þá sérstaklega stjórnanda og stjórnar en þar var Alie gjaldkeri og þá innheimtustjóri mánaðargjalds okkar félaganna, sem oft er vanmetið.

Alie var hefðarkona í leik og starfi. Hún tók með umburðarlyndi og hlýju augnaráðinu er lítið var í buddunni þar sem ég, J.M., naut góðs af hennar biðlund. Alie var sönn í allri framkomu, jarðbundin tignarkona.

Það var mislangur tími sem kórfélagar áttu með Alie en á sjö ára tímabili var farið í heimsóknir í félagsmiðstöðvar höfuðborgarsvæðisins og út á landsbyggðina sem Alie tók þátt í og naut þess mjög þar sem við sungum fyrir og með ungum sem öldnum og ljúft er að minnast þess hve glöð og heilshugar Alie tók þátt í þeim heimsóknum.

Þrátt fyrir háan aldur er það ávallt söknuður og kemur á óvart missir vinar og félaga, en minningin lifir sem þá er hægt að orna sér við.

Innileg samúðarkveðja.

Jón Magnússon, kórfélagi.

Jón Magnússon, kórfélagi.