Þorbjörg J. Schweizer fæddist á Eintúnahálsi á Síðu í V-Skaft. (nú eyðibýli í Skaftárhreppi) 23. september 1903. Hún lést á Klausturhólum á Kirkjubæjarklaustri 31. janúar síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Prestbakkakirkju á Síðu 9. febrúar.

Sómakonan hún Þorbjörg er hnigin í valinn eftir langa og á stundum stranga ævi. Þegar reynt er að ímynda sér bernsku hennar á Eintúnahálsi á Síðu, þar sem hún fæddist, verður manni ósjálfrátt hugsað til lífsins í Sumarhúsum Laxness í Sjálfstæðu fólki. Nafn bæjarins segir sína sögu og það bendir til þess, að ekki hafi verið um mikið ræktunarland að ræða. Nú er bærinn kominn í eyði fyrir nokkuð löngu og er merktur sem kross á landabréfum í Skaptárhreppi við leiðina upp frá Hunkubökkum inn til Lakagíga. En hún náði að brjótast til mennta í heilbrigðismálum og starfaði sem hjúkrunarkona á Kleppi um árabil og lagði síðan leið sína til Þýskalands þar sem hún stofnaði til búskapar með manni sínum Bruno, málvísindamanni og fræðimanni. Þau settust að í Diessen við Ammersee í yndislegu umhverfi í Bæjaralandi, en einnig um sinn í Bozen eða Bolzano í Suður-Týról sem er nú í Ítalíu, en þar er þröngur dalur á milli hárra fjalla. Umhverfi vatnsins Ammersee suðvestur af München er skógi vaxið, grösugt og gjöfult og er nánast í algjörri andstæðu við umhverfi á Eintúnahálsi, en Síða í Vestur-Skaptafellssýslu er einnig heillandi sveit og rætur Þorbjargar slitnuðu aldrei. Þrátt fyrir langa dvöl í Þýskalandi mátti alltaf finna að hjarta hennar sló líka til Íslands og það mátti oft finna fyrir því þrátt fyrir að hún hafi verið bæði hógvær og hlédræg, en hún var föst fyrir og vissi hvað til góðra hluta heyrði. Hennar líf var að sjálfsögðu með fjölskyldu sinni í Diessen, manni, meðan hans naut við, og sonunum tveimur og síðar börnum þeirra, en mágkona hennar, Anne, bjó með þeim einnig lengstaf.

Við hjónin ásamt syni nutum alloft gestrisni Þorbjargar og ferðir okkar á tveimur áratugum frá 1960 til Diessen voru margar og ánægjulegar, en við vorum ekki þau einu því mikill fjöldi Íslendinga og námsmanna í München voru einnig tíðir gestir þar í meira en þrjá áratugi. Í upphafi bjó Schweizer-fjölskyldan við Herrenstrasse í gamla hluta bæjarins Diessen, gömlu húsi sem fjölskylda Bruno hafði átt í langan tíma. Þegar Margrét, móðir og tengdamóðir okkar, kom í heimsókn til okkar í München í byrjun sjöunda áratugarins, upphófst góður vinskapur milli hennar og Þorbjargar, enda báðar úr sömu sýslu og næstum sömu sveit og þekktu því margt fólk sameiginlega. Í framhaldi af spjalli þeirra mátti heyra að fólk og land í Skaftafellssýslunum varð henni stöðugt hugljúfara og þegar Þorbjörg fluttist síðan alkomin til baka til landsins og settist að á vistheimilinu á Kirkjubæjarklaustri, héldust tengsl okkar allra alveg fram undir hið síðasta.

Okkur eru þessar hugrenningar ljúfar og við minnumst Þorbjargar með bæði ánægju og trega því hún var mikil sómakona sem allir vita sem hana þekktu.

Við fjölskyldan minnumst hennar um leið og við auðsýnum sonum hennar og fjölskyldum ásamt vinum öðrum vítt og breitt okkar hugheilar samúðarkveðjur. Guð blessi minningu mikillar sómakonu.

Kristín Hjartardóttir og Jónas Bjarnason.

Kristín Hjartardóttir og Jónas Bjarnason.