[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Ekachai Saithong fæddist í Surin í Taílandi 12. júlí 1981. Hann lést í Reykjavík 20. nóvember síðastliðinn og fór útför hans fram frá Langholtskirkju 29. nóvember.

Þig, sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur og fagrar vonir tengdir líf mitt við, minn hugur þráir, hjartað ákaft saknar, er horfnum stundum ljúfum dvel ég hjá. Heyrirðu ei, hvern hjartað kallar á, heyrirðu storminn kveðju mína ber? Þú fagra minning eftir skildir eina, sem aldrei gleymist, meðan lífs ég er. (Valdimar Hólm Hallstað.)

Elsku Ek.

Þú getur ekki ímyndað þér hvað ég sakna þín mikið, það hefur svo margt breyst síðan þú fórst.

Ég trúi ekki að þú sért farinn og að ég fái aldrei að sjá þig aftur.

Við sem ætluðum að fara til Tælands næsta sumar, í ferðina sem við vorum búin að tala um síðustu 2 árin.

Það er varla hægt að leggja meira á einn vinahóp heldur enn þetta, á 3 mánuðum erum við búinn að missa tvo úr okkar hóp og ég veit ekki hvort við þolum meira.

Ég hef aldrei smakkað eins góðan austurlenskan mat og þann sem þú eldaðir. Ég man að einu sinni þegar við bjuggum á Miklubrautinni, komstu í heimsókn með kjúkling sem þú eldaðir.

En í staðinn fyrir að setjast svo við borðið og borða, sagðistu þurfa að fara heim að elda fyrir afmæli systur þinnar og fórst svo. Eins og systir þín spurði mig um daginn: Hver á nú að halda svona partý eins og þú hélst. Þú hafðir svo gaman af því að skipuleggja partý og varst mjög góður í því. Til dæmis núna fyrir rúmlega mánuði hélt vinur okkar upp á afmælið sitt sem þið voruð búnir að tala um og undirbúa í meira en tvo mánuði áður. Enda var þetta eitt besta partý ársins.

Ég vona svo innilega að þú sért nú hamingjusamur í paradís með Söru.

Ég gleymi þér aldrei, takk fyrir að vera frábær vinur. Þín vinkona

Sigrún.

Elsku ástin mín, ég á ávallt eftir að sakna þín.

Þetta var yndislegur tími sem við áttum saman.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa kynnst svona yndislegum manni eins og þér. Ég trúi því varla að þú sért farinn og fæ aldrei að sjá danssporin þín og bragða á ljúffenga matnum þínum. Ég hlakkaði alltaf til helganna að djamma með þér því þú skemmtir þér alltaf svo vel að maður gat ekki annað en skemmt sér líka vel í kringum þig og ég gleymi aldrei þessu fallega brosi sem kom mér til að brosa.

Að lokum vil ég þakka þér fyrir að hafa stutt mig svona mikið eftir að Sara systir mín lést og nú vil ég reyna að styðja fjölskylduna þína.

Ég elska þig og mun alltaf gera það. Þú varst frábær og munt alltaf vera það.

Vertu sæll elsku Ek minn, ég hlakka til að hitta þig aftur í Paradís.

Ég bið að góður guð verndi og styrki fjölskylduna þína í hennar miklu sorg.

Þig, sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur

og fagrar vonir tengdir líf mitt við,

minn hugur þráir, hjartað ákaft saknar,

er horfnum stundum ljúfum dvel ég hjá.

Heyrirðu ei, hvern hjartað kallar á,

heyrirðu storminn kveðju mína ber?

Þú fagra minning eftir skildir eina,

sem aldrei gleymist, meðan lífs ég er.

(Valdimar Hólm Hallstað.)

Kveðja,

Maríum.

Sigrún.