Laugavegur 2, áður en settir voru gluggar á kjallarann. Einstök mynd af Laugaveginum, sennilega tekin um 1900. Sigfús Eymundsson tók myndina, en þetta er eftirgerð eftir Óskar Gíslason.
Laugavegur 2, áður en settir voru gluggar á kjallarann. Einstök mynd af Laugaveginum, sennilega tekin um 1900. Sigfús Eymundsson tók myndina, en þetta er eftirgerð eftir Óskar Gíslason.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Húsið á Laugavegi 2 er með klassískum stíleinkennum, segir Freyja Jónsdóttir. Það hefur mikið menningarsögulegt gildi, sem tengist verslunarsögu Reykjavíkur.

ÁRIÐ 1848 selur Tómas Sveinsson Lárusi Hallgrímssyni eign sína sem talin var nr. 20 úr Arnarhólsholti (Arnarholtslóðir voru númeraðar). Torfbærinn á lóðinni var nefndur Litlibær. Lárus var bróðir Sveinbjarnar Hallgrímssonar sem stofnaði Þjóðólf.

Lárus byggði bæinn upp og nefndi hann Hólshús, en nafnið Snússa, sem gamansamt fólk kallaði hús Lárusar, festist betur við bæinn en hið rétta nafn. Lárus Hallgrímsson var þekktastur fyrir starf sitt sem dyravörður Lærða skólans.

Árið 1854 er eignin seld á uppboði. Frá þeim tíma til ársins 1868 verða nokkrir eigendur að Hólshúsinu (Snússu) og er Guðrún Jónsdóttir einn þeirra og á hún eignina lengst. Jón og Guðmundur Jónssynir, sem líklega eru synir Guðrúnar, fá báðir byggingaleyfi á lóðinni. Jón reisti hús á Skólavörðustíg 3 en Guðmundur Laugaveg 6.

Halldór Þórðarson bókbindari kaupir "Hólshúsið" af dánarbúi Guðrúnar árið 1886. Sama ár fær hann leyfi fyrir að byggja þar hús að grunnfleti 14½ x 12 álnir. Áður en Halldór kaupir eignina var bærinn búinn að fá spildu af lóðinni undir Skólavörðustíg og Vegamótabrú (nú Laugavegur).

Tvílofta með brotnu þaki

Húsið sem Halldór byggði stendur enn og hefur tekið fremur litlum breytingum frá upphafi. Fyrsta brunavirðingin var gerð 13. ágúst 1887 og segir þar að húsið sé fullbyggt. Þar segir: "Halldór bókbindari Þórðarson hefur nú fullgjört hús sitt sem byggt er af bindingi tvílofta með brotnu þaki.

Á aðalhæðinni eru fjögur íbúðarherbergi og eldhús. Tvö herbergin eru með pappa á veggjum og loftum en hin tvö herbergin eru með borðaþiljum. Þar eru þrír ofnar. Loftin á hæðinni eru tvöföld. Uppi eru fjögur íbúðarherbergi og eitt eldhús með sama frágangi og niðri. Þar eru þrír ofnar og ein eldavél. Í risi eru þrjú íbúðarherbergi, þiljuð með borðum og máluð. Þar eru tveir ofnar." Guðmundur Jakobsson trésmiður byggði húsið fyrir Halldór, en Guðmundur reisti mörg hús í Reykjavík.

Halldór Þórðarson veitti Félagsprentsmiðjunni forstöðu um áraraðir. Árið 1890 byggir hann austan við hús sitt á Laugavegi 2 tvílyfta steinbyggingu yfir prentsmiðjuna eftir að hafa rifið gamla torfbæinn sem þar stóð. Það hús er nú Laugavegur 4.

Hinn 23. september 1905 selur Halldór Ásmundi Gestssyni og Jóni Björnssyni eignina. Árið 1916 er Ásmundur eini eigandinn að Laugavegi 2. Það ár byggir hann tveggja lofta steinbyggingu austan við húsið í sundinu á milli Laugavegar 2 og 4. Grunnflötur byggingarinnar er 6½ x 12 álnir. Þak er á plægðri borðasúð með pappa í milli.

Á neðri hæðinni er sölubúð með borði og hillum, skrifstofa, gangur og skápur. Allt þiljað og strigalagt og ýmist veggfóðrað eða málað. Í efri hæðinni eru þrjú íbúðarherbergi og gangur með sama frágangi og er á neðri hæðinni. Sama ár sækir Ásmundur um að færa forstofuinngang gamla hússins yfir á vesturgafl þess. Einnig að setja fimm glugga á kjallara og inngang í hann á norðvesturhornið, þar sem nú eru tröppurnar.

Kjallarinn á Laugavegi 2 er umhugsunarefni. Í fyrstu virðingum er ekki getið um hann og ekkert sem bendir til þess að kjallari hafi verið undir húsinu þegar það var nýbyggt. Ekki hefur fengist vitneskja um hvort kjallarinn var til en sumir telja að húsinu hafi verið lyft. Líklegasta skýringin er sú að þegar húsið var byggt hafi verið svo kallaður rörakjallari undir því án glugga og ekki manngengur. Hann hafi síðan verið grafinn út og settir á hann gluggar.

Dýrtíðarvirðing 1917

Árið 1917 biður Ásmundur um dýrtíðarvirðingu á húseign sinni. Hann hefur þá framkvæmt þær breytingar sem hann sótti um árið áður og fengið leyfi fyrir.

Í virðingunni segir m.a. að húsið sé klætt utan með tvöfaldri borðaklæðningu, með pappa og með járni þar yfir á tvo vegu. Það er með brotnu þaki, 4½ alin á hæð, gert úr borðasúð, klætt járni og hellum. Sú breyting hefur orðið frá fyrsta mati að niðri eru fimm herbergi og gangur en ekki fjögur og eldhús. Á efri hæð og í risi er sama herbergjaskipan og áður. Kjallari með steinsteypugólfi er undir húsinu öllu.

Í honum er sölubúð með búðarinnréttingum og tveimur herbergjum. Allt kalksléttað innan og málað.

Í virðingum á húsinu er hvergi minnst á að það er með gaflsneiðingum á vesturgafli sem fer byggingarlagi þess vel. Árið 1922 er gluggum breytt á norðurhlið og þeir stækkaðir niður að fótstykki hússins. Þeir eru eins faga og með spegilgleri.

Margir merkir menn og konur hafa búið á Laugavegi 2. Í upphafi síðustu aldar bjó þar Páll Þorkelsson gullsmiður og bæjarfulltrúi. Páll talaði mörg tungumál og skrifaði bækur um ýmsan fróðleik og fróðir menn segja að hann hafi stundað tannlækningar.

Ásmundur Gestsson sem átti húsið lengi var skólastjóri Lýðskólans. Seinni kona hans var Sigurlaug Pálsdóttir frá Litlu-Heiði í Mýrdal. Börn þeirra eru Páll Ásmundsson læknir og Guðrún Ásmundsdóttir leikari og leikstjóri. Sigurlaug átti fyrir fósturdóttur sem Guðrún hét (kölluð Gógó) og ættleiddu hjónin hana og voru þá komnar tvær Guðrúnar Ásmundsdætur á heimilið.

Guðrún, fósturdóttir hjónanna, var amma Bjarkar Guðmundsdóttur söngkonu. Sigurlaug lést frá börnunum ungum og var Guðrún Ásmundsdóttir leikkona ekki nema þriggja ára. Eftir lát móður sinnar voru börnin um tíma í Grafarholti í Mosfellssveit hjá hjónunum Birni Birnis og Bryndísi Einarsdóttur. Eftir rúmlega ár frá láti Sigurlaugar Pálsdóttur sameinaðist fjölskyldan aftur á Laugavegi 2.

Eins og áður segir var Ásmundur Gestsson skólastjóri Lýðskólans sem var til húsa á Bergstaðastræti 3. Guðrún dóttir hans man eftir höfðinglegum gjöfum sem nemendur föður hennar færðu honum, eins og bókaskáp með glerhurðum og tónsprota úr fílabeini. Fjölskylda skólastjórans bjó á efri hæð og í risi hússins en á aðalhæðinni var verslun Reinholds Andersons sem meðal annars seldi stúdentahúfur. Í kjallaranum var kjötbúð Tómasar.

Á verslunarhæðinni var í eina tíð ljósmyndastofa og einnig var þar handavinnuverslun. Þar var um tíma álnavöru- og smávöruverslun sem síðar flutti á Grundarstíg. Núna er þar Hattabúð Reykjavíkur og Kvenfatabúðin. Hattabúðin hefur verið í húsinu frá árinu 1973 en hún var stofnsett á Laugavegi 10 árið 1939.

Tómas Jónsson keypti verslunina af Sláturfélaginu sem hafði leigt hjá Jóni Þórðarsyni kaupmanni í Bankastræti 10. Jón Þórðarson rak mikla verslun við bændur, keypti af þeim sauðfé og nautgripi til slátrunar. Kjötverslun Tómasar Jónssonar var þekkt bæði í Reykjavík og úti á landi og þá sérstaklega fyrir vandaða vöru og mikið og gott vöruúrval.

Árið 1959 kaupa ung hjón, Garðar H. Svavarsson og Hulda Guðrún Guðjónsdóttir, Kjötverslun Tómasar og reka hana af miklum myndarskap til ársins 1980. Þau endurnýjuðu bæði kælibúnað og annan búnað sem versluninni tilheyrði árið 1974. Kælar og frystar voru keyptir frá Danmörku og fóru Hulda og Garðar þangað að velja tækin.

Verslun Tómasar var sérstök, þar var ótrúlega mikið vöruúrval í ekki stærra húsnæði. Í hádeginu var heitur matur seldur og á vorin var gnægð svartfuglseggja á boðstólum. Sérstök stemming myndaðist í versluninni þegar fór að nálgast þorrann og þorramaturinn var tekinn fram, en talið er að þorrabakkar á Íslandi eigi uppruna sinn í Kjötbúð Tómasar.

Dyr á suðurhlið

Garðar og Hulda keyptu húsið að Laugavegi 2 í nokkrum áföngum af erfingjum Ásmundar Gestssonar.

Árið 1974 lét Garðar H. Svavarsson setja dyr á suðurhlið hússins í stað glugga, er veit að Skólavörðustíg.

Í viðbyggingunni var lengi gleraugnaverslun og heillandi köttur í útstillingarglugganum sem sýndi vegfarendum gleraugun sín.

Hannes Sigfússon skáld skrifaði samnefnda smásögu um gleraugnaköttinn. Ýmiss konar annar rekstur hefur verið í því húsi en núna er það skyndibitastaður. Páll Ásmundsson læknir man vel eftir því að einu sinni voru svalir ofan á viðbyggingunni og gengið út á þær frá glugga í risi.

Húsið á Laugavegi 2 er með klassískum stíleinkennum. Það hefur mikið menningarsögulegt gildi sem tengist verslunarsögu Reykjavíkur. Heildarform þess er óbreytt en gluggum hefur verið breytt. Fallegir listar eru við þakbrúnir og listi fyrir ofan glugga annarrar hæðar á vesturstafni.

Helstu heimildir

Borgarskjalasafn, b-skjöl og brunavirðingar og húsadeild Árbæjarsafns.