ÞJÓNUSTUSAMNINGI milli barna- og unglingageðdeildar Landspítala - háskólasjúkrahúss, Barnaverndarstofu og SÁÁ hefur verið sagt upp og segir Ólafur Ó.

ÞJÓNUSTUSAMNINGI milli barna- og unglingageðdeildar Landspítala - háskólasjúkrahúss, Barnaverndarstofu og SÁÁ hefur verið sagt upp og segir Ólafur Ó. Guðmundsson, yfirlæknir barna- og unglingageðdeildar, að þar með verði stórlega dregið úr þjónustu deildarinnar. Í blaðinu í gær kemur fram að Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra og Magnús Pétursson, forstjóri LSH, telji að málið sé á misskilningi byggt og ekki standi til að draga úr þjónustunni að neinu leyti eða segja neinu starfsfólki upp.

Ólafur segist vona að um misskilning sé að ræða, en segir jafnframt að þau skilaboð sem hann, sem yfirlæknir, og deildarstjóri unglingageðdeildar fengu á fundi á föstudaginn, með sviðsstjórum geðsviðs, hafi verið að samningurinn myndi renna út á miðnætti á föstudag og þess vegna yrðu þau að gera ráðstafanir til að mæta þeirri staðreynd. "Ég hef ekki fengið nein önnur formleg skilaboð, þannig að við höfum tekið ákvörðun um að vaktþjónusta, sú sem að í gildi hefur verið, verði ekki lengur til staðar, sem og öll þjónusta, sem kveðið er á um í ákvæðum samningsins," segir hann og bendir á að það breytist ekki nema hann fái formlegar fyrirskipanir um að annað gildi.

Fagnar yfirlýsingu ráðherrans

Að hans sögn á það eftir að koma í ljós hvaða áhrif þessar ráðstafanir eiga eftir að hafa á deildina, en hins vegar segist hann fagna yfirlýsingu ráðherrans um að það sé fullur vilji til að gera nýjan þjónustusamning. "Það er alveg ljóst að sá þjónustusamningur verður ekki með sama hætti og núverandi þjónustusamningur, það hefur komið í ljós í þeim viðræðum sem hafa verið í gangi. Það eru ákveðin atriði samningsins sem allir aðilar eru mjög sáttir við, atriði sem hafa breytt miklu í þjónustu við börn og unglinga með geð- og hegðunarraskanir en það eru hins vegar einnig ágreiningsatriði sem hafa ekki verið útkljáð," segir Ólafur og telur veigamesta ágreiningsatriðið vera hvernig fjármagn samnings hefur verið nýtt.

Magnús Pétursson segir í blaðinu í gær að það sé ekki hluverk Ólafs á spítalanum að gefa út fréttatilkynningar, en Ólafur er ósammála. Hann telur það skyldu sína að upplýsa almenning og alla þá fjölmörgu aðila, sem að eigi mikið undir þjónustu barna- og unglingageðdeildar komið, um þessa stöðu og annað sem kunni að skipta máli í þessu samhengi, enda beri hann mikla ábyrgð á deildinni. "Þótt formlegt valdsvið yfirlæknis sé reyndar verulega takmarkað og fari ekki saman við ábyrgðarsviðið, þá er það réttur yfirlæknis að tjá sig um þessi atriði," bendir hann á og segir það í samræmi við læknaeiðinn og jafnframt samvisku sína.