ÁRNI Steinar Jóhannsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, segir að sér skiljist að yfirmenn Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa hafi lagst gegn því að hann flytti hátíðarræðu á sjómannadagshátíðinni, sem haldin er á Akureyri í dag.

ÁRNI Steinar Jóhannsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, segir að sér skiljist að yfirmenn Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa hafi lagst gegn því að hann flytti hátíðarræðu á sjómannadagshátíðinni, sem haldin er á Akureyri í dag. Þeir hafi hótað að styrkja ekki framkvæmd hátíðarhaldanna. Hann segir þetta alvarlegt mál, að menn geti haft slík áhrif með peningum sínum.

Árna hefur verið tilkynnt að hann flytji ekki ræðuna eins og fyrirhugað var, en Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra var fengin í hans stað.

Árni segist hafa talað við forsvarsmenn ÚA og Samherja og þeir tjáð honum að óviðunandi væri að maður með slíka stefnu í sjávarútvegsmálum flytti ræðuna. "Mér er sagt að fyrirtækin hafi hótað að styrkja ekki sjómannadaginn yrði ég ræðumaður. ÚA var að vísu, að mér skilst, búið að láta fé af hendi, en hótaði að starfsmenn myndu ekki mæta á ballið um kvöldið," segir hann.

Að sögn Árna er málið erfiðara en virðist í fyrstu. "Það er nú farið að fjúka í flest skjól ef þessir menn ætla að fara að ráða öllu. Þeir geta svo sem sagt að þeir hafi aðeins tjáð skoðun sína, en auðvitað er ekki tekin svona ákvörðun nema fyrir mikinn þrýsting," segir hann.

Vísar ásökunum á bug

Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri ÚA, vísar því á bug að fyrirtækið hafi haft í hótunum um að sniðganga hátíðarhöldin, eða beitt sér fyrir því að skipt yrði um ræðumann. "Ég sagði einungis að það væri óheppilegt, miðað við að menn vildu ná meiri sátt í sjávarútvegsmálum, að hann yrði fenginn sem ræðumaður. Við styrktum sjómannadagsráð eins og venjulega og hótuðum ekki að sniðganga hátíðarhöldin," segir hann. "Meðal annars munum við halda hátíðarkaffi fyrir Auðunsbræður, sem voru skipstjórar á fyrstu árum félagsins um og uppúr 1950." Hann segir að nú sé viðkvæmur tími í kjölfar nýrra laga um auðlindagjald og að ljóst sé að meiningar um þau séu afar misjafnar.

Ásgrímur Sigurðsson, formaður sjómannadagsráðs á Akureyri, neitaði að tjá sig um málið við Morgunblaðið í gær.