Atli Örvarsson: Semur tónlist fyrir tvær kvikmyndir í einni!
Atli Örvarsson: Semur tónlist fyrir tvær kvikmyndir í einni!
UNGT íslenskt kvikmyndatónskáld, Atli Örvarsson, er höfundur tónlistarinnar við lokaþátt þessarar leiktíðar af sjónvarpssyrpunni vinsælu NYPD Blue eða New York-löggur, auk þess sem hann er að semja tónlistina við "fyrstu íslensku...

UNGT íslenskt kvikmyndatónskáld, Atli Örvarsson, er höfundur tónlistarinnar við lokaþátt þessarar leiktíðar af sjónvarpssyrpunni vinsælu NYPD Blue eða New York-löggur, auk þess sem hann er að semja tónlistina við "fyrstu íslensku Hollywood-myndina", Veðmálið eftir Sigurbjörn Aðalsteinsson, sem frumsýnd verður síðar á árinu.

Atli hefur undanfarin tvö ár starfað hjá tónskáldinu Mike Post, sem er einhver mikilvirkasti tónsmiður í bandarísku sjónvarpi og hefur gert tónlist fyrir þætti á borð við Hill Street Blues, Magnum P.I., LA Law, Law and Order og NYPD Blue, auk þess sem hann hefur stýrt upptökum fyrir ýmsa tónlistarmenn, allt frá Dolly Parton til Van Halen. "Fyrst þegar ég byrjaði hjá Mike sá ég eingöngu um útsetningar og upptökustjórn fyrir þætti eins og Deadline og Law & Order," segir Atli í samtali við Morgunblaðið. "Smám saman hef ég farið út í að semja tónlist fyrir það sem Mike kemst ekki yfir sjálfur. Það hefur síðan aukist jafnt og þétt og á endanum var ég farinn að semja uppundir helminginn af tónlistinni fyrir NYPD Blue-þættina þannig að það lá í hlutarins eðli að ég fengi kredit fyrir það."

Atli kveður þetta hafa mikla þýðingu fyrir kynningu á nafni sínu í bandarískum kvikmynda- og sjónvarpsbransa. "Þegar mér finnst rétti tíminn kominn mun ég fljúga úr hreiðrinu hjá Mike og fara að vinna í eigin nafni og þá er auðvitað mikilvægt að nafnið hafi komið fram sem víðast. Þá er það ákveðinn gæðastimpill, ef svo má að orði komast, að vinna með jafn viðurkenndum og margreyndum manni og Mike Post."

Atli segist hafa fengið starfið hjá Post í framhaldi af keppni, sem haldin er á vegum BMI, samtaka sem eru hliðstæð STEFi á Íslandi, og í taka þátt ung tónskáld sem hyggja á feril í samningu tónlistar fyrir kvikmyndir og sjónvarp.

"Verðlaunin eru svo að koma til Los Angeles og lifa og hrærast í stúdíóinu hjá Mike í 4-6 vikur. Þetta er í raun einhvers konar sambland af starfskynningu og námskeiði. Ég sem sé vann þessi verðlaun fyrir fjórum árum sem leiddi svo til þess að Mike bauð mér að koma og vinna fyrir sig."

Sem fyrr segir er Atli núna að vinna tónlist fyrir Veðmálið.

"Við Sigurbjörn kynntumst fyrir nokkrum árum hér í Los Angeles og sá vinskapur leiddi til þess að hann bað mig um að semja tónlist fyrir Veðmálið. Myndin er nokkuð krefjandi viðfangsefni þar sem hún fjallar um hóp fólks sem er að búa til kvikmynd. Þannig að í raun er ég að semja tónlist við tvær kvikmyndir í einni! Þetta er um leið mjög spennandi verkefni vegna þess að tónlistin á talsvert stóran hlut í sjálfri frásögninni. Þar að auki eru karakterar í myndinni frá hinum ýmsu löndum og menningarheimum þannig að ég sé fyrir mér að tónlistin muni hafa talsvert alþjóðlegan blæ og e.t.v gefst tækifæri til að blanda saman ólíkri tónlist sem ekki á oft samleið."

Áður hefur Atli samið tónlist fyrir fjórar bandarískar kvikmyndir úr óháða framleiðslugeiranum svokallaða. Þær heita Bad Dog, ...Or Forever Hold Your Peace, Lansdown og Dead Above Ground. Um þær segir Atli: "Bad Dog komst í úrtak fyrir þær stuttmyndir sem tilnefndar voru til Óskarsverðlauna árið 2000. Lansdown hefur gengið vel á ýmsum kvikmyndahátíðum svo sem Berlín og Cinequest. Það skemmtilega við Lansdown var að ég og leikstjórinn, Tom Zuber, sem ég hef trú á að eigi verulega eftir að láta að sér kveða í framtíðinni, hittumst aldrei fyrr en eftir að tónlistin var samin. Tom var að leita að tónlist fyrir myndina, heyrði geisladisk með minni tónlist og réð mig til starfa. Hann var hins vegar í New York og ég í Los Angeles og við unnum þetta með hjálp símans, hraðpósts og Netsins. Síðasta myndin, Dead Above Ground, var samstarfsverkefni milli mín og Mikes Post. Þetta er svona grín/hryllingsmynd, skrifuð af Stephen Cannell sem er frægur rithöfundur hér í landi og bjó einnig til Magnum PI-þættina og Hunter á sínum tíma. Af þessum myndum eru Lansdown og Dead Above Ground búnar að fádreifingar- og vídeósamninga."

Atli Örvarsson var þekktur tónlistarmaður á Íslandi þar til hann hélt vestur um haf til náms. "Þegar ég var sextán ára setti ég mér nokkur býsna háleit markmið fyrir feril í tónlist á Íslandi. Sex árum síðar var ég eiginlega búinn að ná þeim að mestu leyti, þ.ám. að fá gull- og platínuplötur sem meðlimur í Sálinni hans Jóns míns og starfa með mörgum af bestu hljóðfæraleikurum landsins, bæði í djass- og popptónlist. Mér fannst í rauninni ekki að svo miklu að stefna lengur heima, auk þess sem mig langaði alltaf til að læra meira. Ég dreif mig því til Boston til náms. Skólinn sem ég fór í þar heitir Berklee College of Music og er gríðarlega góður tónlistarháskóli, einkum fyrir djass- og dægurtónlist. Það sem heillaði mig kannski mest við skólann er að þar er hægt að læra allt frá fiðluleik til upptökustjórnar með viðkomu í afrísku slagverki. M.ö.o. var þetta góður kostur fyrir mig þar sem ég vissi að ég vildi læra meira en var ekki endilega viss um hvað. Fyrst skráði ég mig í nám í djasspíanóleik en svo rambaði ég á nám í kvikmyndatónlist og þar má segja að ég hafi fundið mína köllun. Að semja tónlist fyrir mynd á einhverra hluta vegna mjög vel við mig og passar vel fyrir minn tónlistarlega bakgrunn sem er býsna fjölbreyttur. Ég sé fyrir mér að halda áfram á þessari braut um ókomna framtíð og þó að ég vinni að mestu leyti við sjónvarp þessa dagana eru það kvikmyndir sem ég hef mestan áhuga á að vinna við."