SAMKVÆMT aflareglu leggur Hafrannsóknastofnun til að hámarksafli á þorski verði 179 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári og er það samdráttur um 11 þúsund tonn frá í fyrra.

SAMKVÆMT aflareglu leggur Hafrannsóknastofnun til að hámarksafli á þorski verði 179 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári og er það samdráttur um 11 þúsund tonn frá í fyrra. Hafrannsóknastofnun telur jafnframt að frekari samdráttur í þorskveiðum sé nauðsynlegur, en sem nemur aflareglunni. Hámarksafli á ýsu eykst úr 30 þúsund tonnum í 55 þúsund tonn, samkvæmt tillögum Hafrannsóknastofnunar og einnig eykst hámarksafli á ufsa. Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra segir tíðindin um ýsuna og ufsann jákvæð og að skýrslan feli almennt í sér góð tíðindi.

Skýrsla Hafrannsóknastofnunar um ástand fiskistofna og tillögur um aflahámark á næsta fiskveiðiári var kynnt í gær. Þar kemur einnig fram að Hafrannsóknastofnun vill takmarka sókn í djúpkarfa þar sem ástand stofnsins sé enn talið slæmt. Hámarksaflinn dregst saman úr 30 þúsund tonnum í 25 þúsund tonn, skv. tillögunum.

Sjávarútvegsráðherra gerir þann fyrirvara að hann sé ekki búinn að kynna sér skýrsluna til fulls, en Morgunblaðið náði tali af honum þar sem hann var á leið til Rússlands. "Mér sýnist að þetta sé allt saman frekar jákvætt; að þorskstofninn hafi náð botninum og hann sé að styrkjast á ný. Sérstaklega eru tíðindin um ýsuna og ufsann jákvæð, en kannski síðri hvað varðar djúpkarfann," segir hann.

Árni segir að hann eigi eftir að skoða ýmislegt betur í skýrslunni. Aflareglan segi að skera skuli niður þorskaflann í samræmi við tillögur Hafrannsóknastofnunar. "Engar fyrirætlanir eru uppi um annað, en ég á eftir að skoða málið betur í heild sinni," segir hann.

Síðastliðin tvö ár hefur Hafrannsóknastofnun endurskoðað aðferðafræði sína og síðastliðið vor var stofnmat á þorski leiðrétt og lagt til að hámarksafli yrði 190 þúsund tonn. "Endurbættar aðferðir okkar staðfesta niðurstöðu okkar frá síðasta vori. Þær benda til þess að þorskstofninn sé heldur að styrkjast en það er engu að síður staðreynd og nokkurt áhyggjuefni að staða stofnsins er veik ennþá og við erum ennþá að veiða af of miklum þunga og of mikilli sókn í þennan stofn," sagði Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, m.a. á blaðamannafundi í gær.

Jóhann lagði einnig áherslu á að brýnt væri að nefnd, sem sjávarútvegsráðherra hefur skipað til að endurskoða aflareglu sem gilt hefur síðastliðin ár, lyki sínu starfi sem fyrst. Breytt aflaregla síðustu misseri væri meðal þess sem vegið hefði þungt í of mikilli sókn í þorskstofninn, að mati Hafrannsóknastofnunar.