Bretland, 2001. Skífan VHS. (104 mín.) Bönnuð innan 12 ára. Leikstjórn: Jeremy Silberston. Aðalhlutverk: Michael Kitchen, Edward Fox, Robert Hardy og Joanna Kannska.

MYND þessi gerist árið 1940, þegar stríðsrekstur Breta er í fullum gangi, en allt virðist ganga á afturfótunum og útlitið ekki beinlínis gæfulegt fyrir bandamenn. Miðaldra lögreglumaður, Christopher Foyle, á sér þann draum heitastan að þjóna ættjörðinni á vettvangi átaka en verður að sætta sig við að halda uppi lögum og reglu í rólegum smábæ við ströndina. Blikur eru þó á lofti. Þýsk eiginkona auðugs landeiganda er myrt og í kjölfarið er hulunni svipt af ýmiskonar spillingarmálum og áður en Foyle veit af er hann kominn á spor svika og landráða.

Hér er á ferðinni afar vel gerð sakamálamynd þar sem framúrskarandi leikur blandast trúverðugri mynd af róstusömum tíðaranda og einkar haganlega smíðuðu handriti. Sérlega áhrifamikil er sú mynd sem dregin er upp af stríðinu "heima fyrir" og hvernig líf allra sögupersónanna litast af ófriðnum. Úrvalsmynd sem óhætt er að mæla með. ***

Heiða Jóhannsdóttir