[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýtt Lærdómsrit er komið út og annað endurútgefið: Hjálpræði efnamanns eftir Klemens frá Alexandríu er 51. ritið í röðinni. Þýðandi er dr. Clarence E. Glad.

Nýtt Lærdómsrit er komið út og annað endurútgefið: Hjálpræði efnamanns eftir Klemens frá Alexandríu er 51. ritið í röðinni. Þýðandi er dr. Clarence E. Glad. Klemens er einn af svokölluðum "kirkjufeðrum" sem hafði mikil áhrif á mótun kristinnar trúar í borginni Alexandríu í Egyptalandi á ofanverðri annarri öld e. Kr. Hjálpræði efnamanns er fyrsta ritið sem þýtt er eftir Klemens hérlendis, en í því fjallar höfundurinn um frásöguna af ríkum manni sem kom til Jesú og spurði hann hvað sér bæri að gera til þess að öðlast eilíft líf (Mark. 10: 17-31).

Í innganginum er gerð grein fyrir hugmyndum Klemensar, helstu áhrifavöldum á hugsun hans og sérkennum hins kristna boðskapar í ritum hans.

Clarence E. Glad er heimspeki- og guðfræðimenntaður og hefur m.a. kennt grísku og Nýjatestamentisfræði við Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla.

Hjálpræði efnamanns er hið fyrsta sem nýr ritstjóri, Ólafur Páll Jónsson, ýtir úr vör.

Samræður um trúarbrögð , eftir David Hume , er endurútgefið, en það kom fyrst út sem Lærdómsrit árið 1972.

Samræður Humes um tilveru Guðs og eðli og hlutverk trúarbragða eru eitt mesta tímamótarit í hugmyndasögu Vesturlanda, en það kom fyrst út árið 1779. Þar gerir Hume nákvæma og gagnrýna úttekt á því grundvallaratriði hefðbundinnar kristinnar heimsskoðunar - og jafnvel flestrar almennrar heimsskoðunar til þessa dags - að heimurinn sé í einhverjum skilningi "skipulagður".

Gunnar Ragnarsson frv. skólastjóri þýddi ritið en prófessor Páll S. Árdal , einn af kunnari sérfræðingum samtímans um kenningar Humes, ritar inngang um höfundinn og rit hans.

Útgefandi er Hið íslenska bókmenntafélag. Oddi hf. prentaði bæði ritin.