Á undanförnum árum hefur göngustígum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað, þeir lengst og verið tengdir saman. Það hefur fólk kunnað að meta og á góðviðrisdögum eru hundruð manna sem nota stígana sér til ánægju og heilsubótar.

Á undanförnum árum hefur göngustígum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað, þeir lengst og verið tengdir saman. Það hefur fólk kunnað að meta og á góðviðrisdögum eru hundruð manna sem nota stígana sér til ánægju og heilsubótar. Sú leið sem mér finnst einna skemmtilegust er gönguleiðin fyrir Seltjarnarnes. Á þeirri leið er margt að sjá og hefur, Lionsklúbbur Seltjarnarness víða komið fyrir smekklegum skiltum með upplýsingum um dýralíf og sögu viðkomandi staða.

Utarlega á nesinu var mikið og gamalt innsiglingamerki sem hrundi í miklu sjávarróti fyrir nokkru. Hét það Suðurnesvarða. Þessi varða var úr grjóti, á að giska fjögurra metra há og tel ég að grunnflötur hennar hafi verið um sjö fermetrar. Sennilega hefur þetta verið ein stærsta varða landsins. Á þessum stað höfðu verið innsiglingamerki öldum saman, sem oft hrundu í foráttubrimum en voru ætíð hlaðin að nýju.

Legg ég til að Seltjarnarnesbær láti endurreisa Suðurnesvörðu. Með nútíma vinnuvélum og tækni ætti það ekki að vera tímafrekt eða erfitt.

Að sjálfsögðu fylgir því nokkur kostnaður en e.t.v. væri hægt að fá nokkra útgerðarmenn (sægreifa) til að styrkja verkefnið.

Trúlega eru einhverjir í þeirra röðum sem hafa áhuga á minjum sem tengjast sjávarútvegi.

Nokkru norðar við þennan stað stendur stórt steinsteypt varðskýli frá stríðsárunum, sem staðist hefur ótrúlega vel tímans tönn. Frá því var fylgst með skipaferðum um sundin.

Við skýlið er ekkert skilti með upplýsingum um það.

Sjórinn er farinn að grafa undan skýlinu og ef ekkert er að gert, er bara dagaspursmál hvenær það hverfur í hafið.

Auðvelt er að bjarga varðskýlinu með því að hlaða stórgrýti fyrir framan það.

Frá varðskýlinu lá símalína í virki efst á Valhúsahæð. Þar höfðu Bretar komið fyrir tveimur stórum fallbyssum, en með þeim átti að verja innsiglinguna til Reykjavíkur. Þegar Bretar fóru í stríðslok, skildu þeir fallbyssurnar eftir.

Íslendingar vildu að sjálfsögðu hafa eitthvert gagn af fallbyssunum og kom ekkert gáfulegra í hug en að losa þær af undirstöðunum, með mikilli fyrirhöfn, og steypa þeim síðan í Reykjavíkurhöfn til uppfyllingar í hafnargarðinn út í Örfirisey.

Við höfnina í Þórshöfn í Færeyjum settu Bretar upp sams konar fallbyssu.

Eftir því sem ég best veit er hún þar enn og vekur mikla athygli ferðamanna.

Það væri ekki úr vegi að tæknimenn Seltjarnarnesbæjar verði sér úti um málmleitartæki og leiti að fallbyssunum.

Ef þær finnast, verði þær grafnar upp og reynist þær í góðu ástandi, verði þeim komið fyrir að nýju á Seltjarnarnesi.

ÞÓRIR HALLGRÍMSSON,

Holtagerði 49, Kópavogi.

Frá Þóri Hallgrímssyni: