Dröfn Guðmundsdóttir: Þríbroti, glerverk.
Dröfn Guðmundsdóttir: Þríbroti, glerverk.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Opið alla daga á tíma tískuverslunarinnar. Laugardaga frá 10-18 og sunnudaga 14-18. Til 4. júní.

TVÆR stöllur sem rýnirinn þekkir lítið til, Dröfn Guðmundsdóttir myndhöggvari og Hrönn Vilhelmsdóttir textílhönnuður, hafa tekið sig saman um sýningu í hinum vistlegu húsakynnum í kjallara tízkuverslunarinnar Man. Og vissulega er ýmislegt skylt með verkunum þótt grunnur þeirra sé af ólíkum toga, annars vegar harður en hins vegar mjúkur.

Dröfn Guðmundsdóttir útfærir hluti sína frjálslega í gler og þeir eru iðulega á mörkum þess að hafa notagildi, í sumum tilvikum, eins og matarsetti, hafa þeir að sjálfsögðu fullkomið notagildi, en svo eru önnur frjáls mótunarlist út í fingurgóma. Ekki gott að segja hvað vegur þyngra í listsköpun Drafnar, en verkið Þríbroti (5) tekur af allan vafa um hæfileika hennar í frjálsri mótun. Í heild um afar vönduð og nákvæm vinnubrögð að ræða sem undirstrika að hér hefur íslenzkri glerlist bætzt góður liðsmaður sem vænta má mikils af. Textílar Hrannar Vilhelmsdóttur hafa hins vegar oftar en ekki ótvírætt notagildi, þótt stásslegt skreytigildið hafi drjúgu hlutverki að gegna í úrvinnslunni. Stundum gengur Hrönn full langt hvað settlegt skreyti snertir, en slík vinnubrögð bera einnig vott um fjölþætta sköpunargleði og vilja til þreifinga til margra átta. Telja má það góðan kost í upphafi ferils, þótt ekki séu slík vinnubrögð í tísku nú um stundir. Satt að segja þykja mér verk hennar þeim betri sem útfærslan er hreinni og einfaldari, skreyti er nefnilega afar vandmeðfarið en getur verið hrifmikið í hinum ýmsu myndum, krefst þó ekki síður mikillar þjálfunar en einfaldleikinn, hér ræður hin þjálfaða kennd úrslitum.

Það er ekki einasta um samsýningu að ræða heldur einnig samvinnuverk í formi dúkaðs borðs, Góða veislu gjöra skal (7), sem óneitanlega leiðir hugann að list notagildis. Borðdúkur Hrannar úr bómullardamaski, en matarstellið verk Hrannar, og er hér afar smekklega að verki staðið. Borðið setur sterkan og heimilislegan svip á sýninguna, en ekki gott að segja nema að athyglin beinist helst til mikið að notagildi hlutanna á kostnað listrænu útfærslunnar. Fjölþætt sýning sem verð er fyllstu athygli, en upplýsingar mjög af skornum skammti.

Bragi Ásgeirsson