Lilja Sigríður Guðlaugsdóttir fæddist á Siglufirði 17. júlí 1923. Hún lést 13. maí síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Kópavogskirkju 22. maí.

Elsku amma Lilja.

Nú ertu farin og mig langar til að kveðja þig með nokkrum orðum.

Ég man reyndar ekki eftir því þegar ég hitti þig fyrst, þegar pabbi minn og Sóley, dóttir þín, kynntust, ég var ekki nema rúmlega tveggja ára en ég man að ég hef alltaf kallað þig ömmu Lilju.

Alltaf þegar ég kom suður reyndi ég að heimsækja ykkur Hrein sem oftast, stundum bara til að segja "hæ" og "bæ" sem voru oft alltof stuttar heimsóknir.

Þér þótti samt alltaf gaman þegar einhver kíkti í heimsókn til þín á daginn, sérstaklega ef Hreinn var að vinna.

Það er mjög skrýtið að hugsa núna að ég fari ekki í heimsókn til þín næst þegar ég kem til Reykjavíkur og plata þig til að spá í einn bolla fyrir mig, mér fannst það alltaf svo gaman og trúði reyndar öllu sem kom upp úr honum! Það var alltaf svo gott að koma til þín, þú hefur frá því ég man eftir mér tekið okkur Einari bróður sem einum af barnabörnunum þínum og okkur fannst mjög vænt um það.

Eftir að ég eignaðist hana Söru Sif reyndi ég alltaf að koma með hana sem oftast og leyfa ykkur að hittast og leyfa þér að sjá hvað hún var orðin stór og dugleg stelpa. Þér fannst líka ofsalega gaman að henni og henni þótti svo vænt um Lilju langömmu. Hún skilur samt ekki í dag, þegar ég hef reynt að útskýra fyrir henni hvar þú ert núna, og af hverju. En hún er nú bara 3 ára og spyr oft um þig, þá reyni ég bara að svara henni eins vel og ég get.

Mér hafði aldrei dottið í hug þegar við Sara komum suður í janúar og hittum þig að það yrði síðasta skiptið sem við myndum sjá þig. Ég ætlaði alltaf að koma suður í maí og biðja þig um að kíkja í bolla fyrir mig, svona rétt fyrir sumarið.

En ég vissi ekki að ég ætti eftir að fara suður í maí til þess að kveðja þig í hinsta sinn.

Elsku amma Lilja, ég vona að þér líði vel þar sem þú ert núna og lítir til með okkur sem sitjum eftir með sorg í hjarta.

Ég þakka fyrir samverustundirnar sem við Sara fengum að eiga með þér.

Guð geymi þig og varðveiti.

S. Rósa Eiríksdóttir.

S. Rósa Eiríksdóttir.